140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[12:47]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Frú forseti. Við höfnuðum í atkvæðagreiðslu um c-liðinn að setja aukið fé í að útrýma einbreiðum brúm og að viðhalda tengivegum. Hér erum við aftur á móti að fjalla um veg sem liggur í gegnum Sveitarfélagið Mýrdalshrepp, veg sem sveitarfélagið hefur sett á aðalskipulag sitt, veg sem íbúar samfélagsins hafa barist fyrir, eina fjallveginn þar sem þeir sem keyra fisk frá Austfjörðum á leiðinni til suðvesturhornsins þurfa að keðja, veg sem þarf að hálkuverja, sem þarf að eyða umtalsverðum fjármunum til að komast yfir. Hér er tillaga minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar, hv. þingmanna Atla Gíslasonar og Ásmundar Einars Daðasonar, um að setja inn fjármuni á síðasta tímabilið til að hefja undirbúning að nauðsynlegum göngum í gegnum Reynisfjall til að flýta því sem flýta þarf og gera þann veg betri. (Forseti hringir.) Þetta er afar þjóðhagslega hagkvæm aðgerð og mun skila sér þegar fram í sækir. Ég segi já.