140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

útlendingar.

709. mál
[15:12]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég óska eftir að hv. þm. Þuríður Backman, framsögumaður nefndarinnar í þessu máli, geri betur grein fyrir fyrirvara þeim sem hún hefur á undirritun nefndarálitsins. Það stendur í nefndarálitinu, með leyfi forseta, að hv. þingmaður skrifi undir álitið með fyrirvara „sem lýtur að stjórnskipulegri stöðu málsins og upplýsingum um fjölda hælisleitenda“. Skorti á upplýsingarnar? Ég sá hér svar við fyrirspurn frá hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni um fjölda hælisleitenda eða ég taldi að svo væri. Það voru fróðlegar upplýsingar sem ég tók til frekari athugunar. Kannski voru þær ekki komnar þegar um þetta mál var fjallað.

Hvað varðar stjórnskipulega stöðu spyr ég: Varðar það þá Evrópuþátt málsins eða hvað merkir það? Ég átta mig ekki á þessum fyrirvara.