140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

útlendingar.

709. mál
[15:17]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 96/2002, með síðari breytingum, um innleiðingu tilskipunar frá Evrópusambandinu. Þetta er aðallega fyrirsvar vegna útgáfu vegabréfsáritana og réttaraðstoð við hælisleitendur. Það verður að segjast að Frakkar hafa séð um þetta fyrir okkur fram til þessa án skilyrða. Það gerðist hins vegar 9. mars 2010 að þeir tilkynntu að þeir mundu ekki fara lengur með fyrirsvar vegna útgáfu vegabréfsáritana fyrir Íslands hönd í þeim ríkjum sem þeir hafa gert fram að þeim tíma í þeim mæli sem þeir hafa gert það.

Við fengum þetta frumvarp inn á laugardaginn og það var fjallað um það á stuttum fundi í allsherjarnefnd. Satt best að segja komu fáar upplýsingar til okkar nefndarmanna eða svör við þeim spurningum sem við bárum fram og ekkert hefur borist frá innanríkisráðuneytinu vegna þeirra spurninga sem lagðar voru fram á laugardaginn og hefðu átt að vera komin í dag eða gær sem innlögn í þetta mál.

Málið snýst fyrst og síðast um að Frakkar vilja ekki halda áfram þessu fyrirsvari fyrir hönd Íslands nema þeir fái vald til að neita einstaklingum um vegabréfsáritun til Íslands. Fram að þessu hafa vafaatriðin og synjanirnar verið send til Útlendingastofnunar til afgreiðslu. Nú vilja Frakkar breyta því þannig að þeir fái þetta vald og í breytingunni felst að það er opnað á samninga íslenskra stjórnvalda um framsal á valdi til töku stjórnvaldsákvörðunar annars ríkis í fullnustu afgreiðslu máls og verði einstaklingi synjað um vegabréfsáritun til Íslands þarf hann að sækja til stjórnsýslu innan þess ríkis sem heitir Frakkland sem neitar um vegabréfsáritun til Íslands en ekki á Íslandi sjálfu. Það kom fram á laugardaginn að ekki hefur verið sérstaklega sóst eftir því að ræða við þá sem hæfastir eru í stjórnskipunarrétti um hvort þetta stenst í raun stjórnarskrána. Meðan á því er vafi hljótum við að túlka vafann stjórnarskránni í hag og framseljum ekki þetta vald.

Að mínu mati höfum við ekki nýtt þessi tæpu tvö ár sem liðin eru síðan Frakkar lögðu þetta til til að kanna hjá stjórnskipunarréttarfræðingum hvort þetta standist stjórnarskrána. Við höfum heldur ekki fengið upplýsingar um það hversu margir þeir eru og hversu mikið umfang er hjá þessum 13 löndum sem Frakkar hafa annast fram til þessa. Þó að í þessum sal hafi verið rætt oftar en einu sinni og oftar en tvisvar um að í gegnum EES-samninginn okkar séum við að framselja ákveðið vald og það hefur verið ágreiningur um hvort það standist stjórnarskrá eða ekki höfum við ekki tekið í þessum sal eða almennt í samfélaginu umræðuna um framsal valds með þessum hætti. Áður en við gerum það, þótt það sé ekki nema í þessu eina tilviki, þurfum við að mínu mati að ræða það betur og komast að niðurstöðu hvað það varðar.

Það er líka umhugsunarefni á 21. öldinni hvers vegna í ósköpunum ekki er búið að hanna þannig tölvukerfi að umsóknir um vegabréf geti farið rafrænt á milli landa. Af hverju í ósköpunum þarf að sækja þetta persónulega til einhverra? Ef menn hugsuðu aðeins lengra og væru búnir að skoða það þyrftum við ekki að framselja vald til eins eða neins til synjunar á vegabréfsáritun til Íslands. Það er ýmislegt í þessu, virðulegur forseti, sem ég tel að við þurfum að skoða.

Í öðru lagi langar mig að nefna hælisleitendur. Ætlunin með frumvarpinu er sögð sú að tryggja hælisleitendum réttaraðstoð frá fyrstu stigum málsmeðferðar á hælisumsókn þeirra hjá íslenskum stjórnvöldum. Það er af hinu góða, virðulegur forseti. Hins vegar er í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins ekki talið að þetta muni hafa neinn kostnað í för með sér. Það stenst ekki. Það stenst ekki að það eigi að veita hælisleitendum réttaraðstoð frá fyrstu stigum og að í frumvarpinu og hjá fjárlagaskrifstofunni sé ekki gert ráð fyrir neinum kostnaði vegna þess.

Virðulegur forseti. Það er margt sem þarf að skoða. Ég dreg ekki í efa að það þurfi með einhverjum hætti að leysa þetta verkefni en það er seint fram komið. Það hefði mátt kanna ýmsa þætti áður en þetta frumvarp var lagt fram á þeim tíma sem við höfum vitað að Frakkar vildu ekki halda þessu áfram. Það kom fram á fundi að Danir eru í sömu stöðu, Frakkar neituðu að vera í fyrirsvari fyrir þá með sama hætti nema þeir fengju neitunarvaldið. Danir ákváðu að leita ekki eftir áframhaldandi samstarfi við Frakka. Ég tel ástæðu fyrir okkur til að skoða frekar hvort við gætum hugsanlega fengið þetta fyrirsvar í gegnum Dani áður en við förum í að framselja vald til slíkrar stjórnvaldsákvörðunar þar sem ekki er kæranlegt innan íslenskra dómstóla heldur þarf sá sem neitað er um vegabréfsáritun að kæra það til stjórnsýslustigs í Frakklandi. Neitun um vegabréfsáritun til Íslands þarf að kærast til stjórnsýslustigs eða dóms í Frakklandi og ég tel ekki að við það verði unað af hálfu okkar Íslendinga.