140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

virðisaukaskattur.

666. mál
[15:44]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt sem á að auðvelda fólki að kaupa nýjar umhverfisvænar bifreiðar. Eins og hv. þm. Lilja Mósesdóttir fór ágætlega yfir nær þetta einungis til takmarkaðs fjölda heimila landsins, þ.e. þeirra sem hafa úr miklu að spila. Í nefndarstarfi vegna þessa máls vildum við hv. þingmaður finna leið sem gæti gagnast fleirum og þá sérstaklega þeim sem hafa ekki mikla fjármuni á milli handanna. Þess vegna höfum við lagt til samhliða þessu frumvarpi að margnota bleiur, svokallaðar taubleiur, verði lækkaðar í virðisaukaskattsflokki. Núna innheimtir ríkið 25,5% virðisaukaskatt af þessum bleium sem er hæsti skattur í heimi og við viljum færa þessa vöru niður í 7% virðisaukaskatt. Þetta mundi skila sér fyrir barnafjölskyldur í landinu í því formi að þær þyrftu að greiða minna fyrir notkun á bleium. Þetta eru grundvallarþarfir barna. Það verður því áhugavert að sjá hvernig stjórnarliðar og aðrir alþingismenn munu greiða atkvæði um þessa skattalækkun sem við hv. þm. Lilja Mósesdóttir leggjum hér fram. Það verður til að mynda áhugavert að sjá hvernig Sjálfstæðisflokkurinn mun greiða atkvæði í þessu máli og líka ríkisstjórnin.

Við horfum líka á það að þessar bleiur eru mun umhverfisvænni en þær bleiur sem annars eru notaðar. Það hefur verið nefnt við mig að það taki allt að 100 ár — (Gripið fram í.) 50 ár? (LMós: 500.) 500, segir hv. þm. Lilja Mósesdóttir. Það er langur tími fyrir bleiu að eyðast í náttúrunni. Við viljum með þessari breytingartillögu stuðla að því að notkun á slíkum bleium minnki eitthvað og þar af leiðandi værum við að ganga í umhverfisvæna átt og í þágu náttúruverndar með því að samþykkja þessa breytingu. Þess vegna hlýtur stjórnmálaflokkurinn Vinstri hreyfingin – grænt framboð að ljá þessu máli stuðning sinn. Sá flokkur hefur reyndar aldrei verið hrifinn af því að ljá málum sem koma frá hv. þm. Lilju Mósesdóttur stuðning sinn. Það er þekkt saga og því miður mikil sorgarsaga þegar við ræðum um skuldamál heimilanna og fleira að bara af þeirri ástæðu að hugmyndin kom frá hv. þm. Lilju Mósesdóttur virtist vera sett rautt á þær tillögur og þær nær undantekningarlaust felldar, því miður. Þetta er sorgleg saga.

Það er mjög gleðilegt á lokadegi þingsins að geta mælt fyrir svona jákvæðu máli sem mun skila barnafjölskyldum í landinu miklum ágóða. Ekki veitir af eftir að lánin stökkbreyttust. Við höfum horft upp á það að barnabætur hafa skerst mikið þannig að hér er komin aðgerð sem mundi bæta lífsgæði barnafjölskyldnanna í landinu, auk þess sem við mundum stuðla að náttúruvernd og grænu hagkerfi. Ég hugsa að það yrði litið til okkar samfélags ef við mundum leiða þetta í lög. Ég ætla að spá því að því miður verði þessi tillaga felld. Ég trúi því reyndar ekki að hv. þm. Mörður Árnason muni standa að því. Hann er réttsýnn maður og eins og við þekkjum hefur hann tilheyrt þeirri deild Samfylkingarinnar sem styður umhverfisvernd og hefur verið ötull talsmaður hennar, að við tölum ekki um hagsmuni barnafjölskyldnanna í landinu. Ég er viss um að hv. þm. Mörður Árnason mun ekki bregðast málstaðnum í þessu mikilvæga máli. En því miður er ég ekki allt of bjartsýnn á að hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon muni ljá þessu máli stuðning sinn þar sem 1. flutningsmaður þess er hv. þm. Lilja Mósesdóttir. En við skulum sjá til, við skulum vera bjartsýn. Það verður að minnsta kosti ekki sagt um okkur sem sitjum í minni hluta á Alþingi að við komum ekki með mál sem skiptir heimilin í landinu miklu. Það gerum við hér með bros á vör og við verðum að vona að þetta mál verði samþykkt þó að 1. flutningsmaður þess sé hv. þm. Lilja Mósesdóttir.