140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

virðisaukaskattur.

666. mál
[15:52]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ef hv. þm. Mörður Árnason vill vera samkvæmur sjálfum sér í málflutningi mætti hann íhuga að við erum að leiða fram undanþágur á umhverfisvænum bílum. Við erum sem sagt að búa til glufur, eins og hv. þingmaður orðaði það, í virðisaukaskattskerfið þar sem ein tegund af bílum ber lægri gjöld en aðrar. Ef hv. þingmaður er almennt séð á móti því ætti hann væntanlega að vera á móti því máli sem við ræðum hér en ég gef mér að hann styðji það.

Að sama skapi getum við akkúrat í þágu umhverfisverndar, eins og verið er að gera með ökutækin hér, stuðlað að því að breyta notkun á bleium með hagsmuni umhverfisins í huga. Hv. þingmaður hefur verið mikill talsmaður umhverfisverndar í þinginu þannig að ég trúi ekki öðru en að við hv. þingmaður séum hjartanlega sammála um þetta. Hins vegar hvað varðar aðrar tegundir af barnafötum man ég eftir því að við hv. þingmaður höfum átt umræður fyrr á þinginu akkúrat um þá hugmynd og ég spurði þá hæstv. fjármálaráðherra hvort ekki ætti almennt að lækka virðisaukaskatt af barnafötum í landinu, af grundvallarnauðsynjavöru. Auðvitað þarf að takmarka það einhvern veginn en hv. þingmaður vildi ekki fara þá leið heldur að hækka barnabætur, að mig minnir. Ég held að það hafi verið málflutningur hans þá sem er alveg rök út af fyrir sig. Um leið og ég svara þessari spurningu svona þætti mér vænt um að heyra frá hv. þingmanni hvort honum finnist hann þá ekki vera í mótsögn við sjálfan sig ef hann ætlar á sömu forsendu að hafna þeirri tillögu sem við hv. þm. Lilja Mósesdóttir höfum lagt fram til hagsbóta fyrir umhverfið og náttúruna í landinu, og ekki síst barnafólkið. Þetta er um leið og hann mælist til þess að gerðar séu undanþágur á kaupum á bifreiðum sem reyndar fæstir hafa efni á — þetta eru nýir bílar sem eiga að vera umhverfisvænir — og er þá verið að setja ákveðnar glufur í skattkerfið.