140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

virðisaukaskattur.

666. mál
[15:56]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Það er hárrétt sem hv. þm. Mörður Árnason bendir á. Virðisaukaskattur, m.a. af bleium, barnafötum og mörgum öðrum nauðsynjavörum, er á Íslandi sá hæsti í heiminum. Þetta er nokkuð sem við þurfum að breyta.

Hv. þingmaður bendir á að við þyrftum að gæta samræmis og jafnvel setja einhver tímamörk á lækkun á þessum skatti af taubleium. Ef það gæti orðið til þess að hv. þingmaður styddi þetta mál held ég að við hv. þingmaður ættum að huga jafnvel að breytingartillögu sem við mundum setja hér fram. Það er náttúrlega kominn mikilvægur stuðningur við þetta mál innan úr Samfylkingunni ef hv. þm. Mörður Árnason styður þessa breytingartillögu okkar og fagna ég því mjög.

Þó að þetta sé lítið skref skiptir það margar fjölskyldur örugglega mjög miklu máli, auk þess sem þetta mundi hafa einhver áhrif til þess að lækka vísitöluna og lækka skuldir heimilanna í landinu því að barnableiurnar eru inni í grunni vísitölunnar sem hefur hækkað allt of mikið frá hruni og stökkbreytt lánum. Það eru margs konar áhrif sem þetta frumvarp mundi hafa, það mundi hafa einhver áhrif til lækkunar á lánavísitölunni, þetta mundi bæta hag barnafjölskyldnanna í landinu og auka umhverfisverndina þannig að ég á orðið erfitt með að sjá hvernig vel þenkjandi menn í umhverfismálum, líkt og Mörður Árnason, geta annað en stutt þessa breytingartillögu sem við ræðum hér, að við tölum nú ekki um þingflokk Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem hefur kennt sig við umhverfisvernd og það að vilja stuðla að bættum hag barnafjölskyldna í landinu. Það hefur reyndar mistekist alveg stórlega en það má reyna að bæta eitthvað fyrir þá hörmungarsögu sem hefur átt sér stað á undangengnum þremur árum. Það mundi kannski aðeins lappa upp á ímynd þess ágæta stjórnmálaflokks.