140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

virðisaukaskattur.

666. mál
[16:10]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Það er mjög gagnlegt að geta átt í samskiptum og skoðanaskiptum um svona mikilvæg mál eins og við ræðum hér og eftir að við hv. þingmaður höfðum rætt málið hér var mér bent á að hv. þingmaður hefur sjálfur verið áhugasamur um að breyta lögum um virðisaukaskatt. Hv. þingmaður benti á það áðan að hann vildi fækka undanþágum en hv. þingmaður lagði fram mjög gott frumvarp til laga, sem ég held að hafi verið samþykkt, um breytingu á lögum um virðisaukaskatt þar sem lagt er til að vefbækur, rafbækur, bækur á geisladiskum og landakort færist í neðra þrep virðisaukaskatts og verði 7% af sölu þessara vara með sama hætti og af sölu hefðbundinna bóka og hljóðbóka nú. Hv. þingmaður lagði þarna til mjög góða breytingu á virðisaukaskattskerfinu og mig minnir að ég hafi stutt það.

Nú erum við komnir að sams konar máli þar sem við ætlum að lækka virðisaukaskatt af taubleium. Ég efast reyndar um að við þurfum að gera það tímabundið, a.m.k. er það ekki þannig í því frumvarpi sem hv. þingmaður lagði fram á sínum tíma. Ef hv. þingmaður er reiðubúinn að koma á málið með því skilyrði íhugum við hv. þm. Lilja Mósesdóttir það alvarlega að leggja fram slíka breytingartillögu. Þó velti ég fyrir mér hvers vegna slíkt var ekki látið falla undir það frumvarp sem hv. þingmaður flutti um skattalækkun á vefbókum, rafbókum og bókum á geisladiskum. Ég veit að hv. þingmaður var mjög vinsæll í því að koma því máli gegnum þingið vegna þess að þetta hafði mjög jákvæð áhrif á marga þjóðfélagsþegna. Nú stöndum við hv. þm. Lilja Mósesdóttir hér í stafni og berjumst fyrir barnafjölskyldur í landinu sem vilja lækka reikninga sína vegna bleiukaupa og ég spyr hv. þingmann í ljósi nýrra grundvallarupplýsinga í málinu hvort hv. þingmaður sé ekki bara orðinn eldheitur stuðningsmaður þessa máls.