140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

virðisaukaskattur.

666. mál
[16:14]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Það er ánægjulegt að finna hvað við hv. þingmaður erum að nálgast efnislega í þessari umræðu. Vonandi verður það reyndin á endanum að við getum þá orðið sammála, rétt eins og við vorum sammála um að breyta lögum um virðisaukaskatt á vefbækur, rafbækur o.fl. Það var mjög góð breyting og ég studdi hv. þingmann mikið í því máli og hafði mikla sannfæringu fyrir því að við ættum að leiða þá breytingu í lög, enda segir í greinargerð með frumvarpi sem hv. þingmaður flutti, með leyfi hæstv. forseta:

„Raf- og vefbækur geta ekki síst komið skólafólki að gagni, létt útgjöld bæði nemenda og skólahaldara — sem fyrst og fremst eru ríki og sveitarfélög, og sparað samfélaginu veruleg gjaldeyrisútgjöld.“

Þetta er akkúrat líka hugsunin á bak við þá breytingartillögu sem við hv. þm. Lilja Mósesdóttir leggjum hér fram nema það snertir annan þjóðfélagshóp, barnafjölskyldur sem þurfa að kaupa bleiur fyrir börnin sín. Í ljósi þess, eins og fram hefur komið, að það tekur eina bleiu 500 ár að eyðast úr íslenskri náttúru hefði ég haldið að bara þau rök, fyrir utan allt hitt sem við höfum rætt um, við hv. þm. Mörður Árnason, mundu leiða til þess að víðtækur stuðningur gæti náðst um þetta mál. Þetta er skynsamleg breyting. Við erum að hvetja fólk til að leyfa umhverfinu að njóta vafans og við verðlaunum þá fólk fyrir slíkt en síðast en ekki síst komum við líka til móts við barnafjölskyldur sem margar hverjar hafa átt erfitt með að ná endum saman í kjölfar hrunsins.

Ég býst við að þetta sé síðasta andsvar mitt við hv. þingmann en hér með skora ég formlega á hv. þingmann að leggja þessu máli lið.