140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

virðisaukaskattur.

666. mál
[16:18]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt með miklu hraði eins og tískan er núna, rætt er stutt og lítið, tekið fyrir í nefndum og rætt þar, komið er með breytingartillögur o.s.frv., allt með miklu hraði. Skattkerfið er í mínum huga aðallega til að afla ríkissjóði tekna. Í öðru lagi er það í hugum annarra en mín aðferð til að breyta hegðun fólks, láta það gera þetta en ekki hitt en ég tel að skattkerfið eigi ekki að vera til þess. Svo vilja sumir fullnægja ákveðnu réttlæti og þær breytingartillögur sem við erum að skoða hér má skoða í því ljósi.

Í frumvarpinu er verið að leiðrétta ýmislegt og aðlaga breytingum á skattalögum. Má kannski segja að það sé vegna þess hraða sem lagasetningin á sér stað í, að stöðugt þurfi að laga og leiðrétta. En það er líka verið að breyta hegðun fólks, til dæmis varðandi rafbíla. Ég get í sjálfu sér tekið undir að skynsamlegt geti verið að minnka útblástur með því að lækka skatta á rafbílum og tvinnbílum. Hins vegar var mér bent á að 50 gramma mörkin, eða minna, sem menn miða við í tvinnbílum, þ.e. tengiltvinnbifreiðum eins og það heitir á lagamáli, sé tómt mengi núna. Það sé eiginlega enginn bíll sem uppfylli þetta skilyrði og þar af leiðandi verður niðurfellingin nokkuð ódýr fyrir ríkissjóð. En svo má vel vera að einhverjir bílar komi, rafbílar munu koma í haust sem munu lækka töluvert mikið vegna þessa ákvæðis og verða því ekki eins dýrir og þeir væru ella.

Nú er búið að hækka þennan skatt upp í 25,5% og komið er heimsmet í virðisaukaskatti á Íslandi. Það leiðir til þess að enn meiri vilji verður til að hola kerfið, gera það flóknara og koma með undantekningar.

Þær breytingartillögur sem fylgja frumvarpinu eru allar í þá veru að verið er að gera eitthvað gott (Gripið fram í: Góðar.) með því að lækka skatta á hinu og þessu. Ég hef oft nefnt það áður að lækka ætti virðisaukaskatt á ilskóm fyrir gamalmenni svo þeim verði hlýtt á fótunum. Það mætti hugsa margt fleira, eiginlega er óendanlega langur listi yfir hluti sem mætti lækka virðisaukaskatt á til að gera vel við hina og þessa sem eru virkilega í þörf fyrir að vel sé gert við þá.

Umræðan hér hefur snúist dálítið um breytingartillögu um virðisaukaskatt á bleium. Það á að vera umhverfisvænt að þvo bleiur. Þegar ég var yngri og átti mín börn voru ekki til svona fínar bleiur, þá þvoði maður allar bleiur. Það var svo sem ekkert mál en auðvitað er hitt óneitanlega þægilegra en veldur gífurlega miklu sorpi. Hér er verið að reyna að stýra fólki frá því að nota einnota bleiur yfir í að fara að þvo bleiur en við það myndast líka mengun, herra forseti. Þegar menn fara að þvo bleiurnar veldur það mengun í skolpkerfinu og í sjónum, þannig að allt er þetta nú tvíbent þegar menn skoða það nákvæmlega.

Vegna þess hve skatturinn er orðinn óskaplega hár og hversu flókið kerfið er þá mun ég styðja þessa tillögu þótt það sé gegn því sem ég vil. Ég vil hafa kerfin einföld en til að hafa kerfin einföld þarf skatturinn að vera bærilegur. Hann er það ekki í dag. Ég geri því ráð fyrir að á næstu árum muni verða sívaxandi vilji til að hola kerfin. Við erum búin að gera nokkrar slíkar breytingar. Ég mun styðja breytingartillögurnar frá hv. þm. Lilju Mósesdóttur og hv. þm. Birki Jóni Jónssyni þó að þær séu í rauninni í þá veru að flækja kerfin og gera þau ógagnsærri og gera skattsvik auðveldari. Það er ekki spurning. Það koma örugglega deilur um hvaða bleia er einnota og hvaða bleia er ekki einnota, hvaða bleiu er hægt að þvo o.s.frv., fólk kaupi bleiu sem ekki er einnota en noti hana bara einu sinni. Sú staða gæti komið upp.

Svo er breytingartillaga um að lækka virðisaukaskatt á varmadælum. Það er skynsamlegt og í takt við það sem verið er að gera við bílana og kæmi vel við mörg sveitarfélög eða staði úti á landi þar sem ekki er heitt vatn. Þetta er í sjálfu sér mjög réttlátt og skynsamlegt. Í ljósi þess að verið er að hola kerfið alla daga mun ég væntanlega styðja þá tillögu frá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni.

Ég held að menn þurfi bráðum að fara að líta til þess að gera kerfið einfalt aftur, lækka skattinn umtalsvert, því að hann hefur eyðandi áhrif í þá veru að mörg framkvæmdin sem ella færi í gang fer ekkert í gang, þ.e. skattstofninn deyr, hann visnar. Og svo svíkja menn undan skatti í mjög stórum stíl, þ.e. skattstofninn fer undir yfirborð jarðar og hvort tveggja er mjög slæmt. Undanskotin valda siðleysi, siðrofi og eru mjög dýr á endanum fyrir þjóðfélagið. Ég held því að menn þurfi að fara að skoða það að gera skattinn einfaldan yfir allt heilbrigðiskerfið, menntakerfið og bara allt heila kerfið þar sem hann er það ekki í dag. Það eru eiginlega fjögur stig á skattinum, það eru 25,5%, 7% og 0% og svo er fjórða stigið, þ.e. þeir sem eru undanþegnir skattinum, geta hvorki talið innskatt né útskatt.

Ég vil einfalda þetta kerfi mikið og lækka skattinn umtalsvert. En að óbreyttri stöðu með svona háan skatt mun ég greiða þessum tveimur breytingartillögum atkvæði mitt.