140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

þingsköp Alþingis.

852. mál
[16:25]
Horfa

Flm. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis. Frumvarpið er samið af þingmönnum í þingskapanefnd en málið hefur verið í vinnslu og til meðferðar í nefndinni á yfirstandandi löggjafarþingi. Flutningsmenn eru auk mín nokkrir þeirra þingmanna sem sátu í nefndinni en rétt er að taka fram strax í upphafi að það sem hér í birtist í frumvarpsformi er sá partur af vinnu nefndarinnar sem tilbúinn var nú í vor og samkomulag var um milli nefndarmanna og þingflokka.

Til að rekja forsögu málsins er rétt að geta þess að með bréfi til forsætisnefndar Alþingis frá 29. júní 2011 óskaði Þórunn Sveinbjarnardóttir, þáverandi formaður þingskapanefndar, eftir því að á 140. löggjafarþingi yrði kosin ný þingskapanefnd til að fjalla um frekari breytingar á lögum um þingsköp Alþingis. Á þingfundi 11. október síðastliðinn var nefndin síðan kosin. Í nefndina voru kosnir eftirtaldir alþingismenn: Ásta R. Jóhannesdóttir, Kristján L. Möller og Oddný G. Harðardóttir frá Samfylkingunni, Árni Þór Sigurðsson og Þuríður Backman frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, Ragnheiður E. Árnadóttir og Birgir Ármannsson frá Sjálfstæðisflokknum, Gunnar Bragi Sveinsson frá Framsóknarflokknum og Birgitta Jónsdóttir frá Hreyfingunni. Magnús Orri Schram tók sæti Oddnýjar G. Harðardóttur í nefndinni í janúar 2012. Á fyrsta fundi nefndarinnar var Árni Þór Sigurðsson kosinn formaður. Í framhaldi af því var Birgir Ármannsson kosinn fyrsti varaformaður og Ásta R. Jóhannesdóttir annar varaformaður. Á fyrstu fundum nefndarinnar var farið yfir helstu verkefni hennar. Nefndin skipti síðan fljótlega með sér verkum til að hægt væri að vinna að þeim málum sem þingskapanefndin, sem starfaði á 139. löggjafarþingi, lagði til í nefndaráliti, eins og getið er um í þskj. 1794, 596. máli, að unnið yrði að.

Verkaskiptingin á milli nefndarmanna var með eftirfarandi hætti:

Í fyrsta lagi var undirhópur um skipulag þingstarfa og reglur um ræðutíma og í honum sátu Birgir Ármannsson og Þuríður Backman. Í annan stað var nefnd um fjárlagaferlið ásamt umgjörð og aðbúnaði fjárlaganefndar og þar sátu Magnús Orri Schram og Ragnheiður E. Árnadóttir. Í þriðja lagi var starfshópur um vef Alþingis, umgjörð þingflokka, lagaskrifstofu og aðbúnað þingmanna og sátu þar Kristján L. Möller og Birgitta Jónsdóttir. Í fjórða lagi var nefnd um skiptingu málaflokka á milli fastanefnda og starfshætti nefnda og í þeim hópi sátu Ásta R. Jóhannesdóttir og Gunnar Bragi Sveinsson.

Samhliða þessari vinnu var unnið að ýmsum lagfæringum á þingsköpum, flestum tæknilegum, af nokkrum starfsmönnum skrifstofu Alþingis sem lögðu margt gott til málanna í þeim efnum. Þegar leið á veturinn urðu nefndarmenn sammála um að forgangsraða verkefnum og því er í frumvarpi þessu aðallega horft til þess að gera ýmsar lagfæringar á þingsköpum Alþingis sem eru flestar tæknilegar.

Næsta haust ráðgerir þingskapanefnd að leggja fram annað frumvarp sem tekur á öðrum þeim þáttum sem nefndin hefur fjallað um í vetur varðandi breytingar á lögum um þingsköp Alþingis. Þar verður meðal annars horft til þess að taka á skipulagi þingstarfanna með ýmsum hætti, til dæmis með því að fjalla um reglur um ræðutíma. Einnig verður þar fjallað frekar um skiptingu málaflokka á milli fastanefnda og starfshætti nefnda en þá verður heilt löggjafarþing liðið frá því að veigamiklar breytingar voru gerðar á nefndaskipaninni og starfsháttum fastanefnda og því komin nokkur reynsla á það starf. Loks er ráðgert að þar verði lagðar til aðrar þær breytingar sem þingskapanefndin telur að þá eigi enn eftir að gera og nauðsynlegar eru til að ljúka þeim verkefnum sem nefnd eru hér að framan. Umfangsmeiri breytingar á þingsköpum en þær sem lagðar eru til í frumvarpi þessu og koma til kasta næsta löggjafarþings tækju þá gildi við upphaf nýs kjörtímabils. Í því frumvarpi sem hér liggur fyrir eru lagðar til nokkrar óhjákvæmilegar breytingar á þingsköpum sem sú breyting að flytja samkomudag Alþingis frá 1. október til annars þriðjudags í september kallar á. Rétt er að rifja upp að í þeirri breytingu sem átti sér stað á síðasta ári, með lagabreytingu á síðasta löggjafarþingi, var hinn svokallaði septemberstubbur í þingstörfunum, fyrsti hálfi mánuðurinn í september, lagður af. Í stað þess var samkomudegi Alþingis flýtt. Þrátt fyrir fréttir í fjölmiðlum í dag, sem hafa að einhverju leyti verið misvísandi, er því ekki verið að taka þá ákvörðun núna heldur var sú ákvörðun tekin á síðasta ári. Breytingarnar sem hér eru lagðar til taka hins vegar sumar hverjar mið af þeirri breytingu sem gerð var á síðasta ári, þær eru með öðrum orðum til þess að fylgja þeirri breytingu eftir og laga aðra þætti þingskapanna að þeirri breytingu sem þá var ákveðin.

Rétt er að nefna að í frumvarpinu eru líka lagðar til nokkrar breytingar á ákvæðum þingskapa sem fjalla um fjárlagafrumvarp og meðferð þess í þinginu, sérstaklega í ljósi breytinga sem verða óhjákvæmilega á meðferð frumvarpsins hér á Alþingi frá og með næsta löggjafarþingi, svo og fjárlagaramma sem ætlunin er að leggja fram á vorin. Það eru líka breytingar sem koma í kjölfar breytinga sem ákveðnar voru á síðasta ári.

Samhliða þeim breytingum sem ég hef hér gert grein fyrir eru líka lagðar til breytingar á nokkrum öðrum lögum, meðal annars lögum um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, einkum hvað varðar innköllun varamanna, greiðslur til aðalmanna og starfskjör varamanna, og byggja þær breytingar á reynslu sem er af núverandi fyrirkomulagi og eru í sanngirnisátt. Nefndin beinir því til forsætisnefndar að gerðar verði breytingar á reglum um greiðslu þingfararkostnaðar sem lúta meðal annars að útborgun fæðingarstyrks í fæðingarorlofi, ákvörðun launa í alvarlegum veikindum maka eða barns, ákvörðun fastra greiðslna í forföllum þingflokksformanns, formanna og varaformanna þingnefnda og heimild til að byggja á ákvörðun kjararáðs um almenn starfskjör embættismanna og reglum um slysa- og ferðatryggingar alþingismanna. Má segja að þær breytingar sem gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi og reiknað er með að forsætisnefnd fylgi eftir með útfærslu í frekari reglusetningu séu til þess fallnar að færa starfskjör þingmanna nær því sem gerist með embættismenn í Stjórnarráði og ekki er ætlunin að ganga lengra eða veita þingmönnum meiri réttindi en þar er samningsbundið en í ljós hefur komið að réttindi eru ekki að öllu leyti samræmd að þessu leyti. En forsætisnefnd er sem sagt falið að setja reglur um útfærslu ákvæða af þessu tagi og gert er ráð fyrir að þær reglur taki mið af því sem gerist með embættismenn í Stjórnarráðinu en gangi ekki lengra en þær hvað þessi réttindamál varðar.

Ég vil að lokum nefna að á fundum sínum í vetur hefur þingskapanefnd líka fjallað um nokkur önnur frumvörp sem lögð hafa verið fram á yfirstandandi löggjafarþingi og vísað hefur verið til umfjöllunar nefndarinnar af stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og varða breytingar á starfsemi Alþingis og á þingsköpum Alþingis. Í fyrsta lagi er um að ræða 27. mál, umræðutíma þingmála. Það mál var rætt í nefndinni og var meðal annars til skoðunar hjá þeim nefndarmönnum sem sérstaklega fjölluðu um þann þátt. Í öðru lagi var fjallað um 28. mál, afnám sérstakra álagsgreiðslna, á þessu löggjafarþingi. Nefndin var ekki sammála þeirri leið sem þar er lögð til en leggur hins vegar til í frumvarpinu nokkrar breytingar á lögum um þingfararkaupið en sú breyting er ekki endilega í samræmi við þá tillögu sem fram kemur í 28. máli. Í þriðja lagi er um að ræða 57. mál, um lagaskrifstofu Alþingis. Það mál var rætt í þingskapanefnd og hefur einnig verið til skoðunar hjá þeim nefndarmönnum sem fjallað hafa um vef Alþingis, umgjörð þingflokka og fleiri slíka þætti. Í fjórða lagi var fjallað nokkuð um 565. mál, um meðferð fjárlagafrumvarps. Má segja að þingskapanefnd hafi í meginatriðum verið samþykk efni þess. Nefndin beinir því til forseta Alþingis að hann leiti eftir því við þingflokksformenn við upphaf næsta löggjafarþings að við skipulagningu umræðna um fjárlagafrumvarp fyrir árið 2013 verði horft til efnis þess frumvarps. Þingskapanefnd leggur síðan áherslu á að í kjölfarið verði lagt mat á það hvernig til hafi tekist með það í huga að þá verði hægt að ráðast í breytingar ef vel tekst til.

Að lokum vil ég nefna það, hæstv. forseti, að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson gegndi embætti formanns þingskapanefndar á þessu löggjafarþingi og stýrði því starfi nefndarinnar sem birtist í þessu frumvarpi. Vil ég fyrir hönd nefndarmanna færa honum þakkir fyrir. Hann er þessa dagana fjarverandi í öðrum störfum og hefur tekið inn varamann og getur því af tæknilegum ástæðum ekki verið flutningsmaður málsins eins og ella hefði verið en er engu að síður, ásamt okkur hinum, samþykkur efni þessa máls enda var frá því gengið fyrir allnokkrum vikum innan nefndarinnar og var góð sátt um þá niðurstöðu sem hér birtist.

Ég vil líka nota tækifærið og þakka Ingvari Þór Sigurðssyni, lögfræðingi á þingfundaskrifstofu Alþingis, fyrir störf hans en hann hefur gegnt störfum ritara þingskapanefndar og unnið gott starf við útfærslu þeirra breytinga sem hér eru lagðar til.

Ég vil að lokum leggja áherslu á að hér er um að ræða ákveðinn áfanga í breytingum á þingsköpum Alþingis. Margar af þeim breytingum sem hér eru lagðar til eru afleiðing eða eftirfylgni vegna breytinga sem samþykktar voru á síðasta sumri. Þingskapanefndin tók þá afstöðu að vinna lengur í ákveðnum atriðum sem ég held að þingmenn séu sammála um að þurfi að taka til endurskoðunar, til dæmis varðandi nefndaskipan, málaflokka nefnda og þess háttar og síðan varðandi ræðutíma og skylda þætti. Það er ekki yfirlýsing um að ekki eigi eða að menn vilji ekki gera breytingar í þá átt að ákvæði um þau atriði skuli ekki birtast í þessu frumvarpi heldur eingöngu það að þingskapanefnd taldi að nota þyrfti meiri tíma til að vinna að undirbúningi þeirra breytinga þannig að hægt væri að koma þeim í framkvæmd í sem allra bestri sátt enda eru nefndarmenn sammála um að mikilvægt sé að þingsköpin séu í öllum meginatriðum afgreidd í samkomulagi en ekki í ágreiningi.

Ég legg til að málinu verði vísað til 2. umr. Ég tel ekki þörf á að óska eftir því að málinu verði vísað til nefndar en vil geta þess að ég mun flytja litla breytingartillögu við 2. umr. vegna ábendinga sem fram komu fyrr í dag um orðalag ákvæðis um stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem felur það efnislega í sér að tekinn sé af allur vafi um að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd skuli skila áliti til þingsins vegna þeirra skýrslna sem til hennar er vísað þannig að orðalagið verði með þeim hætti að ekki þurfi að leika vafi á um túlkun þess.

Að svo stöddu lýk ég máli mínu og vona að hv. þingmenn geti sameinast um afgreiðslu þessa máls í dag.