140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

þingsköp Alþingis.

852. mál
[16:40]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir framsögu hans. Ég hefði áhuga á að heyra það frá hv. þingmanni hvort rætt hafi verið í vinnu nefndarinnar um mikilvægi þess að styrkja starfsemi Alþingis á þann veg sem ég hef lagt til, með því meðal annars að setja á stofn Þjóðhagsstofu sem heyrði undir Alþingi. Alþingi ályktaði sérstaklega um mikilvægi slíkrar stofnunar í tengslum við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, en sú stofnun mundi afla upplýsinga um íslenskt efnahagslíf og rannsaka hagræn áhrif einstakra frumvarpa sem þingið samþykkir.

Vigdís Hauksdóttir hefur líka lagt fram tillögu um að sett verði á stofn svokölluð lagaskrifstofa Alþingis. Við höfum fengið ábendingar um að með því að sameina þessar tvær hugmyndir þeirri upplýsingaþjónustu sem þegar er til staðar á Alþingi værum við komin með mjög svipaða þjónustu og kallast rannsóknaþjónusta norska þingsins. Í umræðum í gær komu fram þær ábendingar frá hæstv. innanríkisráðherra að mikilvægt væri að fram kæmi kostnaðarmat á þau frumvörp sem bæði nefndir og þingmenn leggja hér fram. Hingað til hefur Alþingi einfaldlega ekki haft burði til að fara í þess háttar úttekt en rannsóknaþjónusta af þessu tagi gæti gert það.

Í þessu frumvarpi er verið að ræða minni háttar breytingar, eins og hv. þingmaður nefndi, sem snerta tæknileg atriði en ég held að breyting eins og sú sem ég tala fyrir mundi virkilega styrkja Alþingi sem löggjafarstofnun.