140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

þingsköp Alþingis.

852. mál
[16:42]
Horfa

Flm. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þm. Eygló Harðardóttur að þau atriði sem hún nefnir hafa verið rædd í samhengi við breytingar á þingsköpum. Innan þingskapanefndar hefur verið jákvæður andi gagnvart breytingum sem miða að því að styrkja faglega aðstoð við þingið á forsendum eins og hún nefnir en hins vegar hafa menn ekki sett niður eða komið sér saman um útfærslu í þeim efnum og skoðanir kunna að vera skiptar um það nákvæmlega hvort ganga beri svo langt að setja á fót sérstaka stofnun um þennan þjóðhagslega þátt eða hvort menn láta nægja að efla hinn hagfræðilega, og eftir atvikum hinn lögfræðilega, þátt í skrifstofuhaldi Alþingis. En ég get alveg staðfest að þessar hugmyndir hafa verið ræddar á jákvæðum nótum innan þingskapanefndarinnar þó að hér sé ekki um að ræða tillögur um breytingar á þingsköpum í þá veru.

Þess má geta, og ég segi það frá eigin brjósti frekar en fyrir hönd nefndarinnar, að margt af því sem nefnt hefur verið í sambandi við að styrkja skrifstofu þingsins út frá þjóðhagslegum og lögfræðilegum forsendum er hægt að gera án nokkurra sérstakra lagabreytinga. Það eru atriði sem hægt væri að taka inn og taka ákvarðanir um hér innan húss að því gefnu að fjárveiting fáist á fjárlögum.