140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

þingsköp Alþingis.

852. mál
[16:44]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir það. Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir þingmenn að hafa í huga þegar kemur að gerð fjárlaga í haust að við treystum okkur til að styrkja nauðsynlega stoðstarfsemi fyrir Alþingi því að ég held að það hafi kannski aldrei verið brýnna en núna.

Við sjáum í mun meira mæli en áður að nefndir flytja frumvörp eða gera mjög veigamiklar breytingar á frumvörpum sem koma frá framkvæmdarvaldinu, frá ráðherrunum. Það er því mjög brýnt að við styrkjum þá þekkingu sem til staðar er hér innan dyra.

Þegar þessi hugmynd frá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur kom fram, um stofnun lagaskrifstofu Alþingis, var það dæmigert að niðurstaðan varð sú á endanum að stofna lagaskrifstofu forsætisráðuneytisins til að fara yfir þau frumvörp sem ráðherra leggur fram frekar en að styðja við starfsemina hér eins og hugmynd þingmannsins gekk út á.

Við höfum fengið ábendingar um að í öðrum þjóðþingum á Norðurlöndunum hafi stjórnarandstöðuflokkar fengið hærri fjárveitingar til að reyna að jafna aðstöðumun á milli stjórnarflokka og þingflokka í stjórnarandstöðu, til að geta keypt sér sérfræðiaðstoð og ráðið fólk til að starfa fyrir þingflokka stjórnarandstöðunnar. Við sjáum þennan aðstöðumun meðal annars í því að ráðherrar eru með aðstoðarmenn og hafa aðgang að því sérfræðimenntaða starfsfólki sem starfar innan ráðuneytanna. Hefur nefndin eitthvað rætt það í starfi sínu að stíga þetta skref í átt að því sem þekkist annars staðar á Norðurlöndunum?