140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

þingsköp Alþingis.

852. mál
[16:47]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Margt er ágætt í þessu frumvarpi, þetta er eins konar prófarkalestur og auðvitað hafa nauðsynlegar breytingar verið gerðar miðað við breyttan starfstíma og bættan umbúnað um fjárlaganefnd. Það vekur hins vegar athygli að töluverður hluti af ræðu hv. framsögumanns og textanum í athugasemdum varðar allt önnur lög en þau sem þingskapanefnd var kosin til að sinna, nefnilega ekki lögin um þingsköp Alþingis heldur lögin um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, nr. 88/1995, með síðari breytingum.

Þarna eru margvíslegar umbætur, leiðréttingar mundi þetta vera kallað ef um væri að ræða kjarasamninga og stéttarfélög. Margt af því er alveg ágætt, hljómar vel í eyrum alþingismanns og væntanlega fjölskyldu hans líka. Annað er frekar óljóst. Í athugasemdunum er til dæmis talað um að auk þeirra breytinga sem gerð er bein tillaga um sé forsætisnefnd hvött til að gera aðrar breytingar á ýmsum reglum sem í gildi eru. Hvaða kostnaðarmat leggur nefndin fram við þær breytingar sem felast í 29. gr. og breytingarnar sem forsætisnefnd er hvött til að gera? Hvað kostar það ríkissjóð og hvernig kemur það fram á alþingisreikningunum? Hvert er mat manna á því í nefndinni og aðstoðarmanna hennar, sem sérstaklega voru þökkuð góð störf, hvað hverjum alþingismanni muni vera mikill hagur af þessu í krónum og aurum sem við erum sett til að ráðstafa af skattfé almennings?