140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

þingsköp Alþingis.

852. mál
[16:49]
Horfa

Flm. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hygg að fyrir flesta alþingismenn á flestum tímum þýði þetta nákvæmlega 0 kr. í auknar tekjur eða eitthvað slíkt. Ég held að í ákveðnum tilvikum geti verið um að ræða samræmingu á réttindum sem varða fæðingarorlof, rétt til leyfis í veikindum eða vegna slysa til dæmis hjá maka eða barni. Ég hygg að þá geti verið um einhverja peninga að ræða í tilviki einhverra þingmanna en vonandi verður það sem allra sjaldnast þannig að fyrir hinn almenna þingmann sem ekki lendir í aðstæðum af því tagi held ég að þessi breyting muni engu breyta.

Þarna er hins vegar um að ræða ákveðna rýmkun sem varðar inntöku varamanna sem kann að kosta einhverja peninga, en eins og gildir að jafnaði um inntöku varamanna er það háð miklum óvissuþáttum þannig að nefndin hafði ekki fyrir augunum kostnaðarmat af því tagi. En ég hygg að í samhengi rekstrarkostnaðar Alþingis verði það óverulegt miðað við það sem nú er þótt ég geti fallist á, miðað við umfjöllunina í nefndinni, að þegar kemur að spurningunni um inntöku varamanna og þá hugsanlega um launagreiðslur til þingmanna í einhverjum tilvikum þar sem þeir hafa misst laun þegar þeir taka inn varamann í hálfan mánuð en eru hugsanlega bara hluta þess tíma í opinberum störfum geti það leitt að einhverju leyti til aukins kostnaðar. En ég held að það sé sameiginlegt mat innan nefndarinnar að það sé óverulegt þegar kemur að uppgjöri reikninga þingsins.