140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

þingsköp Alþingis.

852. mál
[16:51]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Hv. framsögumaður þingskapanefndar heldur að það sé sameiginlegt mat manna innan nefndarinnar að kostnaðurinn sé óverulegur. Þetta er ekki þannig frásögn að hægt sé að sætta sig við hana í salnum, einkum ekki frá þingskapanefnd sem leggur til breytingar á mörgum greinum þingskapa en á ekki 30. gr. þingskapa sem kveður sérstaklega á um að frumvörpum og þingmálum skuli fylgja sérstakt kostnaðarmat.

Það er að vísu þannig, forseti, að þá er ekki talað um 1. umr. Þingmenn eru því ekki skyldir til þess í þingmannamálum að leggja fram kostnaðarmat sjálfir heldur er átt við að sú nefnd sem um málið hefur fjallað skuli leggja fram kostnaðarmat í 2. umr., mæli hún með málinu, en nú erum við í 1. umr. Vegna þess að svona háttar til, og við hljótum að gera meiri kröfur til þingskapanefndarinnar en annarra nefnda þegar um þingsköp er fjallað án þess að þingskapanefndin leggi til breytingar á 30. gr., fer ég fram á að málið verði kallað til nefndar, að vísu ekki þingskapanefndar vegna þess að hún tekur ekki við málum milli umræðna, heldur væntanlega til allsherjar- og menntamálanefndar. Ég geri það að tillögu minni að nefndin fari yfir málið milli 2. og 3. umr. og einnig þær athugasemdir sem við það eru gerðar í þessari umræðu og leggi síðan fram kostnaðarmat það sem hér er rætt um. Ég geri ekki ráð fyrir að tæknibreytingarnar í fyrri hluta frumvarpsins leiði til mikils kostnaðar, en ég vil fá að vita hvert mat manna er á þeim kostnaði sem 29. gr. veldur og ekki síður þær breytingar, sem vísað er til forsætisnefndar með heldur losaralegum og óþinglegum hætti, sem gera á á hinum og þessum reglum. Það er mikilvægt að fá það fram vegna þess að formið er mikilvægt. Ef ekkert form er þá er heldur ekkert efni.