140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

þingsköp Alþingis.

852. mál
[17:07]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það er gott að við hv. þm. Kristján Þór Júlíusson erum sammála um að það sé nauðsynlegt að þessar skýrslur fái alla efnislega umfjöllun. Vissulega hefur stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd haft ærinn starfa á nýliðnum vetri og mun hafa það líka á komandi vetri.

Ég held hins vegar að meðan við erum að fóta okkur í þessu breytta umhverfi nefndaskipulags og því að taka betur og skipulegar utan um þær skýrslur sem eftirlitsstofnanir þingsins vinna, sem hefur ekki verið í nógu góðu horfi fram til þessa, sé rétt að þær renni allar í einn og sama farveginn. Ég hef ekki orðið annars áskynja í starfi og umræðu innan stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á nýliðnum vetri en að það sé fullur skilningur og vilji allra nefndarmanna að koma einstaka skýrslum í réttan farveg, þ.e. til þeirra fagnefnda sem við teljum að málin eigi helst heima hjá. Ég held að það skipti hins vegar máli upp á heildarmyndina að þær berist allar á sama stað og að þá sé þetta svigrúm til staðar, heimild til að geta vísað skýrslunum áfram til viðkomandi nefnda. Sú umræða hefur komið upp oftar en einu sinni á nýliðnum vetri að við hefðum gjarnan viljað koma skýrslum til frekari umfjöllunar, sérstaklega hjá fjárlaganefnd. Þessar skýrslur snúa að stjórnsýslulegum þáttum annars vegar og fjárhagslegum þáttum hins vegar. Það er hárrétt sem hv. þm. Kristján Þór Júlíusson nefndi áðan, margar þessar skýrslur lúta beint að þeim eftirlitsþáttum og verkefnum sem fjárlaganefnd fjallar um en ég ítreka að ég tel að minnsta kosti rétt að láta reyna á þennan hátt og þetta verklag. Við getum þá metið það eftir næsta þing hvort ástæða sé til að breyta þessu.