140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

þingsköp Alþingis.

852. mál
[17:09]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Það er ágætt að heyra hjá hv. þingmanni að hann telji ástæðu til að endurmeta þetta verklag. Ég fagna því. Ég nefni bara sem dæmi, hv. þm. Lúðvík Geirsson, að við vorum að fá tilkynningu frá Ríkisendurskoðun um nýja úttekt. Það er ánægjulegt að sjá hversu samtaka samflokksmennirnir voru við það að rétta úr dreglinum, (Gripið fram í: Ég hlakka til.) við vorum að fá tilkynningu frá Ríkisendurskoðun um nýja úttekt á málefnum safna og fjárveitingum til þeirra. Þessi skýrsla mun að öllu óbreyttu sitja í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þangað til nefndin kemst í gegnum þann stabba sem fyrir henni liggur, eðlilega, í stað þess að þetta fari inn til menntamálanefndar eða fjárlaganefndar í einhverja umræðu og úrvinnslu sem ég hefði talið eðlilegra. Það tengist meðal annars þeirri vinnu og breytingum sem gerðar hafa verið á meðferð fjárveitinga til þessa málaflokks sem ég tel nauðsynlegt að fara yfir. Með þessu fyrirkomulagi, þetta er bara eitt lítið dæmi, tel ég að við tefjum þingið í að grípa inn í. Kerfið sem við höfum sett upp er með innbyggðar hindranir. Það er alveg ljóst, eins og hv. þingmaður nefndi, að verkefni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á komandi hausti eru gríðarlega mikil og flókin. Ég hef enga trú á því að með þeim verkefnum sem þar bíða muni létta á þeirri pressu sem hefur verið á stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd varðandi þær skýrslur sem heyra undir hana. Eðlilegra hefði mér þótt að beina þessum athugunum í þann farveg að fara jafnvel beint í gegnum forsætisnefnd í viðkomandi fagnefndir í stað þess að stöðva þetta í einni af (Forseti hringir.) nefndum þingsins.