140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

þingsköp Alþingis.

852. mál
[17:11]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Eins og ég sagði áðan er þetta mál tvískipt, annars vegar eru breytingar á sjálfum þingsköpunum og hins vegar á öðrum lögum, þá einkum lögunum um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað.

Um breytingarnar á þingsköpunum sjálfum er kannski lítið að segja. Þær eru óhjákvæmilegar á einn veg vegna þess að það er verið að breyta tempóinu í þinginu og síðan er töluverður bálkur um fjárlaganefnd sem mér sýnist að sé allur við hæfi og nokkrar aðrar tæknilegar breytingar sem eru eins konar prófarkalestur á þingsköpunum sem samþykkt voru fyrir skömmu. Það sem vekur auðvitað mesta athygli og nánast stingur í augun er það að þingskapanefndin sem nú hefur starfað í þennan heila vetur og tekið að sér ýmis aukaverkefni hefur ekki treyst sér til að ráðast í mat og breytingartillögur á þeim helstu þáttum sem fólust í breytingu þingskapanna þegar þær voru gerðar síðast og næstsíðast, svo sem um ræðutíma. Það hefur komið í ljós í þingstörfunum í vetur, og reyndar áður, að það sem átti að vera mikið framfaraskref, það sem átti að minnka málþóf og rétta þá af stöðu stjórnarsinna og stjórnarandstæðinga, hefur orðið til þess að búa til eilífðarmálþófsvél þar sem stjórnarandstaðan getur með fjögurra eða fimm manna sveitum haldið uppi umræðu um ekki neitt langtímum saman, sólarhringum saman, og knúið í gegn síðan sinn vilja með þeirri hótun sem í því felst. Við erum að ræða málin, það er 19. júní, þ.e. kvenréttindadagurinn, það er komið sumar fyrir löngu og kominn þessi kafli í íslensku dagatali sem mætti kalla hundadaga ef þeir væru ekki seinna á ferðinni, þ.e. tíminn milli 17. júní og verslunarmannahelgarinnar, aðalsumarleyfistíminn, sá tími sem kallaður er í blaðamennskunni gúrkutími.

Í öðru lagi eru breytingarnar sem gerðar voru á þingsköpunum um nefndastörfin. Það er ekki orð um þau, það er ekkert í þeim gert, þ.e. því að búa til þrjá formenn, sem sagt formann og svo 1. og 2. varaformann sem átti, ef ég man rétt, að vera lítil stjórn í nefndinni og fá stjórnarandstöðuna til að vera með. Það er aðeins eitt um þessa breytingu að segja, hún er fullkomlega misheppnuð. Stjórnarandstaðan vildi í fyrsta lagi ekki taka þátt í þessu þegar til kom þó að hún hafi setið í þingskapanefnd á sínum tíma og tekið þátt í ákvörðuninni og síðan veit ég ekki til þess, a.m.k. ekki í þeim nefndum sem ég starfa í, að það sé virk stjórn, ekki einu sinni virkt samráð milli þessara þriggja sem þar áttu að vera. Það kann að vera í öðrum nefndum. Ég hygg að það sé ekki svo með neinum skipulegum hætti, ekki frekar en var í gömlu nefndunum þar sem formaðurinn hafði auðvitað ákveðið samstarf við einhvern stjórnarandstæðinginn sem þar var í forustu og síðan við bandamenn sína í stjórninni.

Þessi tvö atriði hafa sem sé ekki fengið neins konar umfjöllun og ekki heldur þau önnur sem fólust í þessum miklu breytingum á þingsköpunum. Þá stendur eftir hin ágæta kjarasókn þingmanna sem einnig var innifalin í breytingunum á þingsköpunum síðast þegar bætt var við sérstakri 5% þóknun til 2. varaformanns í nefndunum án þess að sérstakt kostnaðarmat fylgdi þá frekar en nú. Það hefur sem sé enn aukið á misrétti í þinginu, á leiðinlegt ójafnræði, sem hv. þm. Kristján Þór Júlíusson minntist einmitt á, þannig að það eru nánast allir með einhvern bónus sem menn fara heldur í felur með, sumir meira að segja með 30%. Það er hægt að vinna sig upp í 30% bónus með því að vera bæði varaforseti í þinginu og nefndarformaður eða þingflokksformaður sem er kannski ekki stundað en það eru dæmi um að menn séu bæði nefndarformenn og varaforsetar í þinginu og fái 30% meira en venjulegir óbreyttir þingmenn, starfsmenn á plani.

Ég geri engar athugasemdir við það í sjálfu sér en tel að ef þetta er svona eigi það að vera með almennum hætti. Við hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir höfum flutt um það tillögur og nú í síðara skiptið tillögu sem kom til þingskapanefndarinnar, ekki í þetta sinn um að það sé afnumið heldur að því verði vísað til Kjaradóms, að Kjaradómur ákveði öll kjör alþingismanna. Það er sérkennilegt að sjá að þingskapanefnd hefur athugað það mál og segir kurteislega að hún sé ekki sammála þeirri leið. Síðan kemur í greinargerð nefndarinnar, í athugasemdunum, að hún leggi til nokkrar breytingar á lögunum um þingfararkaup og þingfararkostnað, svo sem eins og að það stefni í sömu átt, komi í staðinn eða sé að minnsta kosti umfjöllun á sama parti.

Þegar lesnar eru þær breytingar sem nefndin leggur til á þessum lögum eru þær ýmsar ákaflega þarfar og gagnlegar, sumar hjartnæmar, þær sem varða til dæmis umönnun veikra barna og ættingja, og vonandi í samræmi við það sem tíðkast í öðrum kjarasamningum. Engar eru hins vegar þannig að það sé á einhvern hátt snert á þeim vanda eða þeim atriðum sem fjallað var um í tillögu okkar hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur. Það er satt að segja furðulegt að nefndin skuli láta sér detta í hug að halda því fram að hún hafi í raun og veru skoðað þetta frumvarp og haft um það eitthvað að segja þegar hún tekur svo til orða að hún leggi hins vegar til nokkrar breytingar í þeim lögum sem þarna um ræðir.

Hv. framsögumaður málsins rakti, og tók í það ágætan tíma, í hverju þetta felst án þess þó að geta lagt á það neitt kostnaðarmat nema að það væri óverulegur kostnaður. Nefndin hefur sem sé ekki haft fyrir því að reyna að finna út kostnaðinn við þetta mál, við 29. gr., hversu jákvæðar, hjartnæmar og elskulegar sem þær breytingar eru fyrir alþingismenn og fjölskyldur þeirra, hvort sem það eru 30% alþingismenn eða 0% alþingismenn, 30% fjölskyldur eða 0% fjölskyldur. Hv. framsögumaður fjallaði hins vegar ekki um ákveðinn lið, hvorki kostnaðarmatið né það í þessum almennu og elskulegu breytingum sem felst í c-lið 6. töluliðar og þá er rétt að ég geri það. Auk þeirra breytinga sem lagðar eru beinlínis til á lögunum um þingfararkaup og þingfararkostnað er því beint til forsætisnefndar að hún geri ákveðnar breytingar á reglum um sérkjör alþingismanna en það er þannig að forsætisnefnd á, án þess að fyrir liggi kostnaðarmat, að ákveða að alþingismenn eigi rétt á að fá greiddan ýmsan kostnað, með leyfi forseta, „svo sem við kaup á gleraugum eða heyrnartækjum, krabbameinsleit, líkamsrækt o.fl.“.

Það er alkunna á vinnumarkaði að stéttarfélög gangist fyrir því að menn fái greiddan þennan kostnað. Það er þá mjög oft í gegnum sérstakan sjóð sem stofnaður er þar sem atvinnurekandinn leggur sitt til og starfsmennirnir sitt. Hér hefur verið ákveðið að fara ekki þá leið að stofna sérstakan fjölskyldu- eða styrktarsjóð fyrir alþingismenn heldur fari um rétt alþingismanna í þessum efnum, með leyfi forseta, „með sambærilegum hætti og um rétt embættismanna“.

Nú er rétt að framsögumaðurinn svari því hvernig sá sambærilegi háttur er. Hvernig er réttur embættismanna í þessu? Greiðir ríkið þeim heyrnartæki, gleraugu, krabbameinsleit og líkamsrækt samkvæmt reikningi eða er kannski einhver sjóður sem stendur á bak við það mál sem embættismennirnir borga þá hluta af launum sínum í?

Forseti. Því rek ég þetta að þessi hluti frumvarpsins ber þess merki að vera framhald af þeim ákveðna yfirdrepsskap, að ég segi ekki hræsni, sem hefur einkennt umfjöllun alþingismanna um eigin kjör. Það sást best á því að þegar sú breyting var gerð sem varðar það atriði sem við hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir viljum vísa til Kjaradóms fór sú breyting órædd í gegnum þingið. Það er mjög erfitt að finna heimildir um þá breytingu, hver studdi hana og með hvaða rökum þeirri breytingu var komið á vegna þess að þingmenn vildu ekki láta þetta koma í ljós í ræðustólnum, vildu ekki að umbjóðendur þeirra og kjósendur sæju að þeir voru að hækka laun sín og búa til einhvern skrýtinn tröppugang í þinginu, vildu ekki að menn fyndu í Alþingistíðindum eða annars staðar hver stæði á bak við þetta. Samtrygging þingmannahópanna olli þessu og það hefur síðan verið feimnismál í þinginu sem sést best á afdrifum þeirra tillagna sem við hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir höfum flutt, fyrst um að þingið sæi um að jafna þessi kjör og í öðru lagi þegar því var tekið illa, um að þingið gæfi þetta frá sér og fæli Kjaradómi að fjalla um öll kjör þingmanna. Ég spyr framsögumann málsins: Hver var umræðan? Hver var umræðan í nefndinni um þessa tillögu? Hver var afstaða nefndarinnar og einstakra nefndarmanna og einstakra flokka í nefndinni til þessarar leiðar sem við leggjum til, að Kjaradómur ákveði öll kjör alþingismanna, ekki bara sum heldur öll nema þá þau sem eru svo smávægileg, sem skipta svo litlu máli, annars vegar fyrir ríkissjóð og hins vegar þá kannski fyrir venjulega alþingismenn, að rétt sé að skrifstofan fjalli um þau?

Ég vil líka spyrja framsögumann hvaða gestir hafi komið fyrir nefndina við umfjöllun um síðasta hluta frumvarpsins. Hvaða álitsgjafar komu frá til dæmis verkalýðsfélögum og atvinnurekendum, sérfræðingum á vinnumarkaði og stéttarfélagi embættismanna? Hverju skiluðu þeir? Var leitað munnlegs álits þeirra eða komu fram skriflegar umsagnir? Ef þetta var ekki gert hlýtur sú nefnd sem við málinu tekur fyrir 2. umr. að reyna að afla sér álits hinna sérfróðu á því hvernig þessu er best hagað. Ekki síður er forvitnilegt að vita hvar nefndin bar niður í leit að samanburði á kjörum íslenskra þingmanna og erlendra, hvar hægt sé að nálgast þá skýrslu sem nefndin hlýtur að hafa tekið saman eða látið taka saman fyrir sig um kjör norskra, sænskra, danskra og finnskra þingmanna þannig að nefnd séu þau ríki sem við leitum oftast til um samanburð með þessum hætti.

Ég veit að vísu ágætlega að kjör þeirra eru yfirleitt betri en íslenskra þingmanna enda er íslenska þingið þannig, hversu stolt sem við erum af því, að það jafnast helst á við fylkisþing í þessum löndum. Ég er ekki að tala niður kjör alþingismanna á Íslandi þó að menn hafi reynt að halda það eins og þeir geta. Ég tel að þau eigi hins vegar að vera öllum ljós, að öll mál í kringum þessi kjör þingmanna eigi að vera algerlega gagnsæ. Það á ekki að vera nein samtrygging í þessum efnum, menn eiga ekki að bindast neins konar samtökum heldur leggja fram öll gögn í þessu máli eins og þau eru og taka þá annaðhvort þá stefnu að gera þetta allt sjálfir eins og var fyrrum í þingsögunni þegar alþingismenn ákváðu þetta sjálfir. Þá lögðu þeir sjálfir allt fram fyrir kjósendur sína. Hinn kosturinn væri að þetta yrði allt lagt í hendur hinna sérfróðu, annars vegar kjaradómsmanna og hins vegar þá skrifstofunnar á þinginu í smávægilegum málum. Ég tel að þingmenn skuldi þjóðinni það eftir þann vanda sem þeir eiga þátt í, allir, þó að sumir beri þar meiri ábyrgð en aðrir eftir hrunið, að gera þetta með opnum, heiðarlegum og gagnsæjum hætti. Ég spyr hv. framsögumann málsins: Af hverju er það ekki gert?