140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

þingsköp Alþingis.

852. mál
[17:28]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er vel kunnugt úr sögu kjarabaráttu á síðari tímum á Íslandi að þar eru aldrei bætt kjör, hækkuð laun eða almenn framför á kjörum stétta heldur er alltaf um að ræða leiðréttingar, smávægilegar leiðréttingar, sagt að í samanburði við aðra hópa sé það réttlætismál og sanngirnismál. Það er ekki lengur sótt fram á þessu sviði til bættra kjara fyrir einstakar starfsstéttir heldur eru sífelldar leiðréttingar á ferðinni. Mér heyrist þessi ágæti forustumaður í kjarabaráttu alþingismanna, hv. þm. Birgir Ármannsson, hafa numið þetta orðfæri úr stéttabaráttu samtímans og ég óska honum til hamingju með það.

Hann talar um varamannareglur og það er auðvitað margt rétt sem hann segir um það. Hann minnist ekki á það sem er auðvitað algjörlega sanngjarnt að með þessum lögum er varamönnunum sjálfum færð sérstök ávinnsla orlofsréttinda. Það hefur væntanlega óverulegan kostnað í för með sér að mati nefndarinnar sem hefur rætt þetta mál sérstaklega og farið í gegnum það með sérfræðingum sínum við kostnaðarmat sem nefndinni er að vísu ekki skylt að gera en væri æskilegt að þingskapanefnd stæði fyrir vegna 30. gr. þingskapa um kostnaðarmat með málum af þessu tagi. Það vekur athygli, og ég spyr um það aftur, að þingmaðurinn vill ekki fjalla um þessar reglur sem forsætisnefnd á að bæta, reglur um gleraugu, heyrnartæki, krabbameinsleit, líkamsrækt og fleira, en þó ekki stofna sérstakan fjölskyldu- og styrktarsjóð. Ég spurði: Kostar þetta ekki neitt? Er enginn kostnaður af þessari „leiðréttingu“ á kjörum þingmanna?