140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

loftslagsmál.

751. mál
[18:09]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get staðfest að þeir tveir þættir sem hv. þingmaður nefnir sérstaklega, annars vegar staða steinullarverksmiðjunnar og hins vegar staða skógræktenda eða skógarbænda, voru teknir til sérstakrar umfjöllunar í nefndinni. Ég játa að ég er í sömu sporum og hv. þingmaður um að geta ekki snarað fram lausn á þeim málum við þessar aðstæður. Ég held að í tilviki skógarbændanna sé ekki möguleiki á góðri lausn fyrir hendi eins og sakir standa en í tilviki steinullarverksmiðjunnar vonast ég til að hægt verði að finna lausn. Ég tek það fram að af hálfu umhverfisráðuneytis og Umhverfisstofnunar kom fram verulegur vilji í nefndinni til að koma til móts við þessa aðila.

Ég ætla hins vegar ekki að rekja í smáatriðum aðrar athugasemdir sem fram hafa komið við frumvarpið, til dæmis í þeirri ítarlegu umsögn sem kom frá Samtökum atvinnulífsins þar sem eru tíu tölusettar, konkret breytingartillögur sem fjalla um hina aðskiljanlegustu þætti. Ef ég hefði talið aðstæður með þeim hætti að við gætum leyft okkur lengri málsmeðferðartíma hefði ég gripið til þeirra aðgerða sem hv. þingmaður talar um í þessu sambandi en ég taldi að ég hefði lýst þeirri skoðun minni með skýrum hætti að ég mundi ekki leggjast gegn framgangi þessa máls í þinginu þótt ég gæti því miður ekki stutt það vegna þeirrar útfærslu sem hér liggur fyrir.