140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

nauðungarsala, aðför, meðferð einkamála og fjármálafyrirtæki.

716. mál
[18:29]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Til gjafsókna er árlega varið tiltekinni upphæð og er sett reglugerð sem ákvarðar hvernig þessari upphæð skuli varið. Samkvæmt lögunum eins og þau standa nú er ráðherra heimilt að setja í reglugerð ákvæði um almenn tekjuviðmið þannig að skattgreiðendur kosti aðeins dómsmál tekjulægsta fólksins. Með þessari breytingu er sú heimild afnumin. Nú verður innanríkisráðherra gert að heimila gjafsókn samkvæmt öðrum forsendum.

Við umræðuna sögðu flutningsmenn að þessi breyting ætti ekki að koma niður á tekjulægsta fólkinu sem væntanlega þýðir aukið fjármagn til gjafsókna. Þetta þarf fjárveitingavaldið að hafa í huga þegar þessi breyting er samþykkt. Sjálfur ætla ég að sitja hjá við atkvæðagreiðslu um þessa lagagrein, ekki vegna þess að ég sé henni andvígur og væri það ekki ef fjármagn yrði stóraukið heldur vegna hins, að mér finnst vinnubrögðin ekki nægilega vönduð og tel að eðlilegra hefði verið að Alþingi skýrði betur þær forsendur sem byggja á nýjar reglur á. Komi ekki meira fjármagn til er einvörðungu verið að vekja væntingar hjá fólki sem ekki koma til með að standast nema þá að breytingin bitni á tekjulægsta fólkinu.