140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

nauðungarsala, aðför, meðferð einkamála og fjármálafyrirtæki.

716. mál
[18:31]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því að lagt er til að 8. gr. falli brott úr frumvarpinu er sú að upplýsingar liggja fyrir um samkomulag á milli fjármálafyrirtækjanna og umboðsmanns skuldara um að fjármálafyrirtækin muni greiða fyrir málskostnað þeirra sem munu þurfa að höfða mál til að fá yfirsýn yfir fordæmi hvað varðar gengistryggð lán. Við erum að tala þar um tíu til ellefu mál sem ætlunin er að höfða og hluti af því samkomulagi og þeim skilyrðum sem Samkeppniseftirlitið setti var að það yrði einhvern veginn komið til móts við það.

Hins vegar hefur það samkomulag ekki verið undirritað þannig að ég held að mikilvægt sé fyrir okkur hér á þingi að hafa það í huga að ástæðan fyrir að við erum að leggja þetta til er sú að þessar upplýsingar liggja fyrir. Þetta er sem sagt lagt til í trausti þess að fljótlega verði gengið frá samkomulaginu. Því segi ég já.