140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

virðisaukaskattur.

666. mál
[18:54]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Hér er kominn gamall kunningi. Hér er breytingartillaga sem heimilar að endurgreiða virðisaukaskatt vegna kaupa á varmadælu. Tilgangurinn er einfaldur. Hann er sá að stuðla að lækkun húshitunarkostnaðar, sérstaklega á köldum svæðum, og einnig að stuðla að orkusparnaði í landinu sem hlýtur að vera keppikefli allra. Þetta byggist á frumvarpi sem ég er 1. flutningsmaður að. Með mér flytja það frumvarp þingmenn úr Sjálfstæðisflokknum, Samfylkingunni, Vinstri grænum, Framsóknarflokknum, Samstöðu og Bjartri framtíð.

Þetta er mál sem hlýtur að teljast eins nálægt því að vera þverpólitísk samstaða um eins og mál geta verið og ég sé í þingsalnum fjölda meðflutningsmanna minna úr þessum stjórnmálaflokkum. Ég treysti því að við styðjum þetta mál. Frumvarpið hefur legið í efnahags- og viðskiptanefnd án þess að hljóta þar afgreiðslu þrátt fyrir að um þetta sé svona mikil þverpólitísk samstaða og þrátt fyrir að kallað hafi verið eftir umsögnum í tvígang og þær séu allar jákvæðar. Nú reynir á að menn vilji afgreiða þetta mál. Ég trúi því ekki að sú meinbægni sé á bak við, ég treysti því sem 1. flutningsmaður, að stjórnarmeirihlutinn treysti sér ekki til að styðja mál sem lækkar húshitunarkostnað í landinu.