140. löggjafarþing — 127. fundur,  19. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:38]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Hægt væri að setja á langar ræður og hefur svo sem verið gert í þessu máli um veiðigjöld og þær aðferðir sem notaðar eru við að reyna að ná inn arðinum af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Sú aðferð sem notuð er í þessum frumvörpum og þær breytingar sem verið er að gera á þeim aðferðum eru allt of flóknar og allt of mikil inngrip inn í rekstur sjávarútvegsfyrirtækja. Við í Hreyfingunni höfum lagt til, bæði í framlögðu frumvarpi og á fleiri stöðum, að auðlindarentan verði einfaldlega innheimt með þeim hætti að útgerðin greiði það fyrir aðganginn að auðlindinni sem hún telur sér kleift að gera hverju sinni og útgerðarmenn ráði því hvað þeir borga mikið í auðlindagjald. Það er einfaldlega gert með því að aflaheimildir eru settar á uppboð með skilmerkilegum og skilvirkum hætti og mönnum gert kleift að bjóða í þær þannig að þeir sem eru í útgerð viti nokkurn veginn hvar þeir standa rekstrarlega og geta þá keypt sér aflaheimildir í samræmi við það.

Í álitsgerð nefndar um mótun heildstæðrar stefnu um framtíðarfyrirkomulag skattlagningar í sjávarútvegi sem fylgir með fylgiskjali um frumvarpinu um veiðigjöld segir, með leyfi forseta:

„Helstu tiltækar leiðir til að skapa þjóðinni hlutdeild í auðlindarentunni má setja í fjóra meginflokka:

A) Bein nýting ríkisins á auðlindinni,

B) Sala á nýtingarheimildum,

C) Árleg gjaldtaka fyrir nýtingarleyfi,

D) Breytilegur tekjuskattur eða álag á tekjuskatt og

E) Bein skattlagning auðlindarentu.

Engin af þessum leiðum er gallalaus en hugsanlegt er að nálgast sett markmið með blöndu af þessum leiðum.“

Í skýringu við lið B, sölu á nýtingarheimildum, segir, með leyfi forseta:

„Sala á nýtingarheimildum getur verið með ýmsum hætti allt frá uppboði á nýtingarheimildum til lengri tíma til skammtímaleigu. Fræðilega séð á þessi leið að geta skilað meginhluta auðlindarentunnar til eigandans en krefst þess að markaðurinn sé virkur og gagnsær. Tiltekið umfang nýtingar í tiltekinn tíma er boðið út og selt hæstbjóðanda eða leigt þeim sem best býður. Samkvæmt fræðunum er bjóðandinn tilbúinn að kaupa þar til verðið er svo hátt að það nægir ekki til að mæta kostnaði þar með talið ávöxtun eigin fjár og því verði fullkomin skil á rentunni til eigandans ef fullkominn markaður er fyrir hendi. Mikill kostur þessarar aðferðar er að með henni verður verðmæti veiðiheimildanna sýnilegt og greiðslugeta fyrirtækjanna kemur í ljós í því sem þau bjóða.“

En svo segir:

„Uppboð eru vandasöm í framkvæmd og fela uppboð í sér hættu á samráði tilboðsgjafa eins og sýnt hefur sig erlendis og eins er samráð bjóðenda möguleg einkum þegar fá fyrirtæki eru virk á uppboðsmarkaðinum til dæmis vegna þess að mörg eru þegar í hámarki kvótaeignar eða fákeppnismarkaður er til staðar af einhverjum ástæðum svo sem í sérhæfðum veiðum eins og uppsjávarfiskveiðum.“

Frú forseti. Hér gerir þessi nefnd eigin hugmyndir ónýtar með því að skjóta þær niður með orðalagi og hugmyndum sem eru algerlega innihaldslausar. Til dæmis er staðið fyrir víðtækum uppboðum á skuldabréfum ríkissjóðs nánast í hverjum einasta mánuði á mjög miklum fákeppnismarkaði þar sem uppboðin eru einfaldlega regluvörðuð á þann veg að tryggt sé að enginn einn einstakur aðili eignist allt sem er á uppboðum. Það er tiltölulega einfalt mál að koma á fót uppboðsmarkaði með aflaheimildir ef vilji er fyrir hendi. Hins vegar hefur ekki verið vilji fyrir því hjá hæstv. ríkisstjórn, þar með talið hjá hæstv. utanríkisráðherra, sem var að hughreysta mig í ræðustól og ég þakka fyrir það. (Utanrrh.: Gefa þér styrk.) Þar sem, frú forseti, slík leið er ekki farin í þessu frumvarpi höfum við í Hreyfingunni og sá er hér stendur lagt fram breytingartillaga við frumvarp um veiðigjöld. Breytingartillagan er einfaldlega fram komin vegna þess að þau veiðigjöld sem lögð eru til í frumvörpunum eru að okkar mati allt of lág. Breytingartillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

„1. málsliður 7. gr. orðist svo: Almennt veiðigjald skal vera 99 kr. á hvert þorskígildiskíló og skal fylgja nýjustu og mánaðarlegum verðvísitölum fyrir botnfiskafla annars vegar og uppsjávarafla hins vegar.“

Frú forseti. Nýtt verð á leigukvóta á markaði á Íslandi samkvæmt tölum Fiskistofu er 285 kr. á þorskígildistonn. Í janúar var það um 320 kr. Það að leggja á veiðigjald samkvæmt frumvarpinu sem er í kringum 10% af því gjaldi sem er í gangi á markaði finnst okkur einfaldlega vera allt of lágt. Og þótt það leiguverð sem er á markaði sé nokkurs konar jaðarverð og einhvers konar hámarksverð eru engu að síður til útgerðir sem geta gert út með hagnaði á þessu verði. Því teljum við að veiðigjald, 99 kr. á hvert þorskígildiskíló, sem er rétt um þriðjungur af því sem viðgengst á markaðinum í dag og vel innan við þriðjungur af því sem viðgengst fyrr á árinu, sé einfaldlega mjög hæfilegt veiðigjald og eðlilegt að útgerðin greiði það gjald fyrir afnot af auðlindinni. (Gripið fram í: Heyr! Heyr!) — Heyr, heyr, heyri ég í hv. stjórnarþingmönnum og ráðherrum og vonandi skilar það sér þá inn í atkvæðagreiðsluna á eftir þegar greidd verða atkvæði um breytingartillöguna.

Það hefur líka komið fram, frú forseti, að útgerðir á Íslandi eru að kaupa kvóta á svokölluðum rússafiski á um 130–140 kr. kílóið þannig að í gangi er verð sem útgerðin ræður við sem er margfalt hærra en stjórnarmeirihlutinn leggur nú til. Við teljum einfaldlega að það sé sóun á auðlindinni að reyna ekki að ná inn meiri tekjum og rentu af svo dýrmætri auðlind sem fiskurinn er.