140. löggjafarþing — 127. fundur,  19. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:45]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég beið eftir því að sjá greinargerð meiri hlutans. Ég vonaðist til að það kæmi fram einhver skýring á hinum algera viðsnúningi Vinstri grænna í þessu máli. Ég vonaðist til að sjá rökstuðning fyrir því að þessi flokkur sem áður hafði það orð á sér að vera stefnufastur, hefði skipt um stefnu. Menn gat greint á um hversu skynsamleg pólitík þess flokks var en voru þó þeirrar skoðunar að þarna væri á ferðinni stefnufastur flokkur. Því er eðlilegt að menn hefðu haft væntingar um að það kæmi fram skýr rökstuðningur fyrir því hvers vegna stjórnmálaflokkurinn Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefði svo gersamlega og algerlega snúið við blaðinu í þessu mikilvæga máli.

Ég átti von á því að röksemdafærslan yrði eitthvað á þessa leið: Ríkissjóður stendur svo hörmulega illa að það þarf að nota þessa fjármuni til að greiða niður skuldir eða stöðva hallarekstur. En það er ekki röksemdafærslan, áherslan er ekki lögð á þetta. Fremur hitt að það eigi að bæta í ýmsar framkvæmdir. Það á að nota þessa fjármuni, eins og er reyndar sagt í áliti meiri hlutans, til að fara í byggðatengdar framkvæmdir, til að auka fjölbreytni í atvinnulífi landsbyggðarinnar o.s.frv. Við höfum heyrt einstaka hæstv. ráðherra nefna það hversu mjög þeir horfa til þessa gjalds og við urðum vitni að því í umræðunni í dag um samgönguáætlun hvernig menn sjá fyrir sér að geta eytt því. En það eru ekki rökin. Það er ekki einhvers konar neyðarrök sem valda því að menn segja: Tímabundið, vegna þeirra aðstæðna sem upp eru komnar, þurfum við að taka slíkt gjald. Það eru ekki þau rök.

Í raun og veru hafa engin sérstök rök komið fram hjá forustumönnum Vinstri grænna í þinginu fyrir þessum viðsnúningi. Ég er og var algerlega sammála þeim áherslum sem forustumenn þessa flokks höfðu áður, þegar þeir voru í Alþýðubandalaginu og seinna eftir að Vinstri hreyfingin – grænt framboð var stofnuð, um að það væri óskynsamlegt að leggja sérstakan skatt á sjávarútveginn og fyrir því voru færð mjög frambærileg rök að mínu mati. Það eru ákveðin vonbrigði að sjá ekki neina röksemdafærslu fyrir þessum mikla viðsnúningi.

Verði frumvarpið að lögum verður niðurstaðan þessi: Það mun verða aukin sameining í þessari grein og fyrirtækjum mun fækka. Hin stærri fyrirtæki sem hafa betra fjárflæði og betri afkomu munu standa af sér gjaldið en þau fyrirtæki sem eru í erfiðleikum núna munu auðvitað þurfa að bregðast við og væntanlega verða einhver þeirra keypt af hinum stærri fyrirtækjum sem nýta sér tækifærin. Hvar skyldu þessu fyrirtæki mörg hver vera, virðulegi forseti? Skyldu þau ekki einmitt ekki vera í veikustu byggðunum? Skyldi ekki vera svo að saman færi veik staða útgerðarfyrirtækja og veik staða byggða?

Þetta ýtir undir sameiningu í greininni, fyrirtækin verða færri og stærri vegna þess að stjórnvöld hafa lagt á sérstakt gjald og þetta mun einnig veikja byggðir landsins. Það er alveg sama hvernig því er snúið. Þess vegna hefði maður svo gjarnan viljað fá betri og nánari rökstuðning frá forustumönnum Vinstri grænna í þessu máli. Ég hef ekki gert neinar slíkar kröfur á hv. þingmenn Samfylkingarinnar. Þeir eru algerlega samkvæmir sjálfum sér í þessu máli og hafa verið alla tíð. Það hefur alltaf verið stefna þess flokks að leggja þetta gjald á. Þeir hafa alltaf talið að það væri skynsamlegt. Gott og vel. Það hefur verið málefnalegur ágreiningur um það.

Það sem er svo alvarlegt við þetta mál er reikniverkið sem menn hafa reynt að leggja fram. Það mistókst vegna þess að það var svo augljóst að það gat ekki gengið upp. Flækjustigið ætti að benda mönnum á það hversu hættulegt og óæskilegt það er að ætla sér að reyna að taka skatt á grundvelli slíkra reiknireglna. Það versta er í þessu að menn gáfu sér það einhvern veginn að um væri að ræða auðlindaskatt, það væri verið að taka inn rentuna. Meira að segja eftir að menn höfðu áttað sig á því að þessi reikniregla nær ekki utan um rentuna er samt sem áður alls staðar talað um rentu í nefndarálitinu og í lagatextanum o.s.frv., þrátt fyrir að augljóst megi vera að um ekkert slíkt er að ræða, það hugtak á ekki við.

Verði þetta frumvarp að lögum mun það ekki verða til góðs fyrir landsbyggðina, ekki sjávarútveginn og ekki fyrir íslensku þjóðina. Það er rökvilla og það er fullkominn misskilningur að halda því fram að þjóðin geti ekki notið arðs af þessari auðlind sinni nema með því að hún sé skattlögð með þessum hætti. Það er rangt, virðulegi forseti. Það var rangt þegar forustumenn Vinstri grænna börðust gegn þessari skattlagningu og það er rangt núna þegar þeir leggja hana til. Það hefur allan tímann verið rangt og það mun verða rangt.

Við fylgdust með því hv. þingmenn þegar fyrrverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra, hv. þm. Jón Bjarnason, var látinn taka pokann sinn, þegar málið var tekið af honum í Stjórnarráðinu og fært til hæstv. heilbrigðisráðherra og hæstv. menntamálaráðherra og þeim var fengið það verkefni að sýsla með sjávarútveginn. Það verður auðvitað að segjast eins og er að það hlýtur að vera fyrir sérkennilegt fyrir þann hv. þingmann að fylgjast með því hvernig þessu máli hefur farnast í þinginu og að fylgjast með umsögnum allra þeirra sem komu fyrir nefndina og gáfu álit sem voru öll neikvæð — nema reyndar eitthvert eitt einstakt samfylkingarfélag sem skilaði inn jákvæðri umsögn. Það er rétt að halda því til haga. En fagmenn á þessu sviði úr háskólasamfélaginu og sveitarstjórnarmenn gáfu allir frumvarpinu algera falleinkunn. Það hlýtur að vera undarlegt fyrir hv. þm. Jón Bjarnason að horfa á það hvernig þetta mál hefur gengið fram og hugsa til þess að honum var vikið frá verkinu og það fært til annarra hæstv. ráðherra og um það talað að hæstv. þáverandi ráðherra hefði ekki vald á verkefninu. Ég verð að segja eins og er, virðulegi forseti, að sú útreið sem þetta frumvarp fékk á þessu þingi bendir ekki til þess að menn hafi haft vald á þessu verkefni.

Enn og aftur. Hverjar verða nákvæmlega afleiðingarnar af þessari gjaldtöku, þessari upphæð? Hvað þýðir þetta fyrir til dæmis veikburða sjávarútvegsfyrirtæki sem eru þó ekki skuldum hlaðin og geta ekki dregið frá vegna skulda? Hvað þýðir þetta fyrir byggðarlögin þar sem slík fyrirtæki eru jafnvel burðarásar í atvinnulífinu? Hafa menn farið yfir það og látið meta það, t.d. eins og Landsbankinn gerði þegar málið kom inn í þingið? Bankinn skilaði áliti þar sem hann fór einfaldlega yfir stöðu viðskiptavina sinna, en Landsbankinn er einn stærsti aðilinn þegar kemur að lánveitingum til sjávarútvegsfyrirtækja. Hefði ekki verið ráð að við hefðum fengið einhvers konar mat á þessu þannig að við vissum hvað við værum að fara að samþykkja? Hefði ekki þurft að fá mat á því hvað það þýðir fyrir sjávarbyggðirnar að leggja á gjald sem getur farið hátt í 14 milljarða? Hvers lags vinnubrögð eru þetta, virðulegi forseti? Hvers lags vinnubrögð eru það að ganga svona frá málum, enn og aftur? Það hlýtur að vera furðuleg upplifun fyrir hv. þm. Jón Bjarnason að fylgjast með þessu, minnugur þeirra orða sem féllu um ráðherratíð hans.

Virðulegi forseti. Mér er þungt í sinni yfir þessu. Ég veit það sjálfur að fyrir fyrirtækjum í sjávarútvegi, minni fyrirtæki sem berjast jafnvel í bökkum við núverandi aðstæður og hafa ekki bara skyldur gagnvart hluthöfum sínum heldur þeim byggðarlögum þar sem þau starfa, eru þessar fyrirhuguðu ákvarðanir Alþingis skelfileg tíðindi. Og það var einmitt á grundvelli þess sem ég er að lýsa hér, stöðu byggðanna, sem stjórnmálaaflið Vinstri hreyfingin – grænt framboð barðist á móti slíkri skattlagningu, að mínu mati. Það byggðist einmitt á þessum rökum um stöðu sjávarbyggðanna og stöðu minni byggðanna. Ég hef engar stórar áhyggjur af hinum stærri og meiri fyrirtækjunum sem eru öflug og í stærri plássum. En minni fyrirtækin mörg hver munu eiga í miklum örðugleikum með að standa undir þessu gjaldi. Og hvers vegna í ósköpunum eru menn að leggja á gjald með þessum hætti án þess að vita nákvæmlega hvað það þýðir? Virðulegi forseti. Þetta er ekki boðlegt fyrir okkur. Það er ekki boðlegt að leggja á svona gjöld án þess að við höfum skoðað nákvæmlega hvað þessi upphæð þýðir fyrir stöðu þessara fyrirtækja og stöðu minni staðanna. Allt er þetta síðan gert til að geta aukið útgjöld ríkissjóðsins.

Ég er því alfarið og algerlega á móti því að þetta frumvarp verði gert að lögum og ég vona að það verði niðurstaðan að þingið segi nei. Ég geri mér svo sem ekki miklar vonir um að mönnum snúist hugur en það væri heillaskref ef við tækjum þá ákvörðun að hafna þessu frumvarpi.