140. löggjafarþing — 127. fundur,  19. júní 2012.

stjórn fiskveiða.

856. mál
[21:12]
Horfa

Flm. (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég flyt frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Öll efnisatriði þessa frumvarps voru rædd í hv. atvinnuveganefnd í morgun og samþykkt þar af nefndinni með fimm samhljóða atkvæðum.

Með frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, með síðari breytingum. Frumvarpið var lagt fram í kjölfar þess að samkomulag tókst á milli stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi á 140. löggjafarþingi um hvernig haga bæri meðferð og afgreiðslu nokkurra þingmála á því þingi. Ég fer yfir þær greinar sem um fjalla, um I. kaflann fyrst.

Í fyrsta lagi felur frumvarpskaflinn í sér að gerð verði breyting á V. kafla laga um stjórn fiskveiða sem fjallar um veiðigjöld. Sá kafli inniheldur fimm lagagreinar sem allar fjalla á einn eða annan hátt um álagningu, útreikning og innheimtu veiðigjalds.

Í öðru lagi felur frumvarpskaflinn í sér að gerðar verði breytingar á nokkrum bráðabirgðaákvæðum laga um stjórn fiskveiða. Er markmið breytinganna að fiskveiðiárið 2012/2013 lúti stjórn fiskveiða sem næst sömu reglum og giltu fyrir fiskveiðiárin 2011/2012 sem senn er á enda.

Í 2. gr. frumvarpsins er gengið út frá því að fjórar af nefndum lagagreinum verði felldar brott en í 1. gr. er gert ráð fyrir að efni þeirrar fimmtu, 20. gr., verði breytt þannig að hún beri með sér að um álagningu og greiðslu veiðigjalda fari samkvæmt sérstökum lögum um veiðigjöld. Er þar tekið fram að gjaldskylduna beri þeir sem fá úthlutað aflaheimildum samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða eða landa annars afla. Hefur efni greinarinnar ríka samstöðu með efni frumvarpsins til laga um veiðigjöld, þ.e. mál nr. 658, á þessu löggjafarþingi, og gerir í raun ráð fyrir að það frumvarp verði samþykkt sem lög á Alþingi með þeim tillögum til breytinga sem kunna að verða samþykktar við meðferð þess.

Um 3. gr. frumvarpsins segir:

Í ákvæði til bráðabirgða V segir að krókaaflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila, einstaklinga eða lögaðila, eða í eigu tengdra aðila við gildistöku laga nr. 42/2006, nú lög nr. 116/2006, yfir þeim mörkum sem sett eru í 1. eða 2. mgr. 13. gr. skuli viðkomandi aðili þegar í stað senda Fiskistofu tilkynningu í samræmi við 1. mgr. 14. gr. laganna og gilda þá ákvæði 2. mgr. þeirrar greinar. Þó kemur fram að aðilinn hafi frest fram til 1. september 2012 til að ráðstafa krókaaflahlutdeildinni þannig að hún rúmist innan settra marka. Með þeirri breytingu sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu verður tilkynningarfrestur um krókaaflahlutdeild yfir mörkum framleiðenda til 1. september 2013. Aðrar breytingar verða ekki á efni ákvæðisins.

Um 4. gr. vil ég segja þetta:

Í ákvæði til bráðabirgða VII segir meðal annars að ráðherra geti á fiskveiðiárinu 2009/2010, 2010/2011 og 2011/2012 bundið meðferð aflaheimilda ákveðnum skilyrðum eða ákveðið að óheimilt sé að framselja eða ráðstafa með öðrum hætti aflaheimildum úr einstökum sveitarfélögum eða byggðarlögum þegar um er að ræða umtalsverðan hluta aflaheimilda í viðkomandi sveitarfélagi eða byggðarlagi, að minnsta kosti um fimmtung eða meira og ætla má að framsal eða önnur ráðstöfun þeirra út fyrir sveitarfélagið eða byggðarlagið hafi veruleg neikvæð áhrif í atvinnu- og byggðalegu tilliti.

Með 4. gr. frumvarpsins er lagt til að framangreind heimild ráðherra til að binda meðferð aflaheimilda skilyrðum eða banna framsal eða ráðstöfun þeirra á ákveðinn hátt verði framlengd þannig að hún gildi einnig fyrir fiskveiðiárið 2012/2013. Aðrar breytingar verða ekki á efni ákvæðisins.

Í 5. gr. segir meðal annars:

Í ákvæði til bráðabirgða VIII er fjallað um ráðstöfunarrétt ráðherra á aflaheimildum tiltekinna fiskstofna til ráðstöfunar til sérstakrar úthlutunar. Þar kemur meðal annars fram að á fiskveiðiárinu 2010/2011 og 2011/2012 hafi ráðherra til ráðstöfunar 2 þúsund lestir af síld, íslenskri sumargotssíld, og 2 þúsund lestir af norsk-íslenskri síld. Þá kemur þar fram að á fiskveiðiárinu 2011/2012 hafi ráðherra 1.200 lestir af skötusel til ráðstöfunar. Í 5. gr. frumvarpsins er lagt til að framangreindur ráðstöfunarréttur ráðherra yfir því magni af síld, íslenskri sumargotssíld, norskri-íslenskri síld og skötusel sem kemur fram í bráðabirgðaákvæðinu, verði framlengdur og nái því til fiskveiðiársins 2012/2013. Aðrar breytingar verða ekki á efni ákvæðisins.

Um 6. gr. vil ég segja þetta: Í ákvæði til bráðabirgða IX er fjallað um ráðstöfunarrétt ráðherra á tilteknu magni á óslægðum þorski og óslægðum ufsa til strandveiða og til stuðnings byggðarlögum að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Í 6. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að ráðstöfunarréttur ráðherra samkvæmt 2. og 3. mgr. ákvæðisins verði framlengdur til fiskveiðiársins 2012/2013. Þá er gert ráð fyrir að 4. mgr. ákvæðisins verði felld brott og því verði ráðstöfunarréttur ráðherra ekki lengur háður því að leyfilegur heildarafli þorsks verði meiri en 160 þúsund lestir og ufsa meiri en 50 þúsund lestir en að auki verður ekki skylt að draga aflaheimildir frá leyfðum heildarafla áður en kemur til skiptingar og frádráttar samkvæmt 3. mgr. 8. gr. laganna.

Um 7. gr. vil ég segja þetta: Í ákvæði til bráðabirgða X segir: Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 8. gr. laganna skulu frádráttarliðir samkvæmt þeirri málsgrein eins og þeir voru fyrir gildistöku 3. gr. laga þessara koma til frádráttar að 3/4 hlutum frá leyfðum heildarafla á fiskveiðiárinu 2011/2012. Skal frádráttarhlutfall samkvæmt 3. mgr. 8. gr. laganna á því fiskveiðiári aðeins koma til frádráttar svo nemi fjórðungi þess. Skal aflamagnið samkvæmt þessari málsgrein ráðstafað samkvæmt 5. og 6. mgr. 8. gr. laganna.

Í 3. mgr. 8. gr. laganna er meðal annars kveðið á um að aflamark veiðiskips á hverju fiskveiðiári, veiðitímabil eða vertíð ráðist af leyfðum heildarafla í viðkomandi tegund og hlutverk skipsins í þeim heildarafla að frádregnu tilteknu hlutfalli af magni hverrar tegundar og skal hið sama gilda um aflamark samkvæmt lögum nr. 151/1996. Frádráttarhlutfallið var þar tilgreint 5,3%.

Fyrir gildistöku 3. gr. laga nr. 70/2011 var framangreint 5,3% frádráttarhlutfall ekki til staðar heldur var þá aðeins gert ráð fyrir að frá aflamarki aflahlutdeildarhafa væri dregið sem næmi jafngildi aflahlutdeildar hans margfaldaðri með samanlögðum afla sem ráðstafa skyldi til strandveiða, til byggðaaðgerða og til línuívilnunar. Má því segja að 5,3% frádráttarhlutfallið hafi falið í sér viðbót á skerðingu aflamarks aflahlutdeildarhafa. Í ljósi bráðabirgðaákvæðis X var skerðingin lækkuð fiskveiðiárið 2011/2012. Lækkunin fór þannig fram að hin nýja 5,3% skerðing tók aðeins gildi að 1/4 en hin eldri skerðing gilti áfram að 3/4 hlutum. Var bráðabirgðaákvæðinu aðeins markaður gildistími þetta eina fiskveiðiár.

Í 7. gr. frumvarpsins felst að fyrir fiskveiðiárið 2012/2013 mun 5,3% skerðing 3. mgr. 8. gr. laganna taka gildi svo nemi 4/5 hluta hennar en hin eldri skerðing heldur gildi sínu áfram svo nemi 1/5 hluta hennar.

Um 8. gr. vil ég segja þetta: Í 1. málslið ákvæðis til bráðabirgða XI er kveðið á um að lokamálsliður 5. mgr. 6. gr. laganna, 2. mgr. 23. gr. a og 4. mgr. ákvæðis til bráðabirgða VIII skuli ekki gilda á árinu 2012. Í 2. málslið þess er kveðið á um að þrátt fyrir 1. málslið skuli rannsóknasjóður til að auka verðmæti sjávarfangs fá 30 millj. kr. framlag til ráðstöfunar á árinu 2012 af tekjum vegna aflaheimilda samkvæmt 5. mgr. 6. gr. og 4. mgr. ákvæðis til bráðabirgða VIII. Í 8. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að gildistími 1. málsliðar bráðabirgðaákvæðisins verði framlengdur þannig að hann nái til ársins 2013 og tekjuframlag 2. málsliðar verði einnig til ráðstöfunar á því ári. Í lokamálslið 5. mgr. 6. gr. laganna er kveðið á um að tekjur af aflaheimildum sem ráðherra hefur til ráðstöfunar til þeirra sem hafa leyfi til frístundaveiða skuli renna í rannsóknasjóð til að auka verðmæti sjávarfangs. Í 2. mgr. 23. gr. a er kveðið á um að nánari útfærslu á ráðstöfun 15% tekna af veiðigjaldi til sveitarfélaga skuli koma fram í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2012. Í 4. mgr. ákvæðis til bráðabirgða VIII er kveðið á um að tekjur af aflaheimildum sem ráðherra hefur til ráðstöfunar til sérstakrar úthlutunar í síld, þ.e. í íslensku sumargotssíldinni, norsk-íslenskri síld og skötusel, skuli renna til ríkissjóðs og þeim skuli ráðstafa á þann veg að þær renni í rannsóknasjóð til að auka verðmæti sjávarfangs með það að markmiði að stuðla að rannsóknum, nýsköpun og þróun í sjávarbyggðum.

Samkvæmt 9. gr. er gert ráð fyrir að frumvarpið öðlist þegar gildi.

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið er þetta tillaga til breytinga á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Það eru allra nauðsynlegustu breytingar sem þurfti að gera á þessum lögum.