140. löggjafarþing — 127. fundur,  19. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:00]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Það er staðreynd sem öllum er orðin ljós að fullkomin óvissa er fram undan í því hvernig þetta veiðigjald mun skila sér. Þar af leiðandi er auðvitað fullkomin óvissa um fjárfestingarstefnu ríkisstjórnarinnar eins og við ræddum um um daginn þegar sú stefna var til umræðu.

Það er staðreynd að aðferðafræðin er röng og vitlaus og illa hugsuð og meiri hlutinn hefur viðurkennt það með breytingartillögum sínum. Allflestar af breytingartillögum meiri hlutans eru til bóta. Við munum engu að síður sitja hjá við afgreiðslu þeirra vegna þess að þó að þær séu góðar laga þær ekki alvont frumvarp sem við munum greiða atkvæði gegn.

Varðandi breytingartillögu hv. þingmanna Jóns Bjarnasonar og Atla Gíslasonar munum við framsóknarmenn styðja þá tillögu vegna þess að hún er í anda þeirrar stefnu sem við höfum lagt fram, þ.e. að hluti af veiðigjaldinu renni til sjávarbyggðanna þar sem auðlindin verður til og hluti til sjávarútvegsins til nýsköpunar og framþróunar. En það er algjör óvissa um afleiðingar (Forseti hringir.) þessa á einstök fyrirtæki og algjör óvissa um hverju þetta mun skila í framtíðinni.