140. löggjafarþing — 127. fundur,  19. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:01]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Hér er komið til lokaafgreiðslu frumvarp til heildarlaga um veiðigjöld sem hafa verið til mikillar umræðu og orðið til mikillar vinnu í nefndinni. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka öllum nefndarmönnum í atvinnuveganefnd fyrir mikla skipulagða, agaða og góða vinnu á einum 25 fundum við að taka á móti gestum og umsagnaraðilum sem meðal annars gerði það að verkum að hér eru fluttar fjölmargar breytingartillögur sem allar eru til bóta að mati allra sem komið hafa að málinu.

Við 1. umr. þessa máls kom fram frá fulltrúum allra flokka að þeir vildu hækka veiðileyfagjaldið. Það er verið að gera nú og síðan verður tíminn að leiða í ljós hvernig það er skilgreint hjá einstökum flokkum hvað er hóflegt og hvað óhóflegt. Það verður verkefni framtíðarinnar en þetta vildu allir gera. Það vildu allir hækka veiðileyfagjaldið. Margir umsagnaraðilar fjölluðu um það, virðulegi forseti. Hluti (Forseti hringir.) af veiðigjaldinu eins og hér hefur komið fram, m.a. hjá hæstv. forsætisráðherra, á að fara til að styrkja innviði samfélagsins og það er gott.

Ég ítreka að lokum þakkir til nefndarmanna fyrir mjög góða vinnu (Forseti hringir.) og þakka framsögumanni málsins, Birni Vali Gíslasyni, fyrir hans störf.