140. löggjafarþing — 128. fundur,  19. júní 2012.

fundarstjórn.

[23:08]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég tel ekki viðkunnanlegt að þessum degi ljúki á þinginu með því að samþykkt er frestun á fundum Alþingis án þess að geta þess að eitt af afrekum þessa þings er að hafna því að afgreiða lítið frumvarp um breytingu á lögum um náttúruvernd, þar sem fyrst og fremst var reynt að gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir utanvegaakstur. Menn muna kannski að það varð samkomulag um allt annað mál, nefnilega um stjórnarskráratkvæðagreiðslu að þetta mál færi aftur til sinnar nefndar og þar reyndu menn að ná um það sáttum. Við nefndarmenn í umhverfis- og samgöngunefnd tókum við málinu og teygðum okkur langt, við sem studdum frumvarpið eins og þeir hljóta að viðurkenna sem unnu þetta með okkur. Að lokum var þetta þannig — og það er sú saga sem þarf að segja hér — að Sjálfstæðisflokkurinn hafnaði frumvarpinu sem slíku, hafnaði ráðstöfunum gegn utanvegaakstri. Þannig að utanvegaakstur sumarið 2012 er í boði Sjálfstæðisflokksins.