140. löggjafarþing — 128. fundur,  19. júní 2012.

fundarstjórn.

[23:09]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég geri athugasemd við þá dagskrá sem liggur fyrir þessum fundi því ég hafði sannarlega vænst þess að á dagskrá væri frumvarp til breytinga á lögum um náttúruvernd sem hefur verið í þinginu til meðferðar í sjö mánuði. Í dag eru meira en sjö mánuðir liðnir frá því að því var vísað til nefndar.

Það er oft kvartað undan því að mál komi hingað seint inn og séu illa unnin. (Gripið fram í.) Það er búið að halda 15 fundi um þetta mál í nefndinni og mikill tími hefur farið í umræður. En þegar meiri hlutinn er búinn að teygja sig til samkomulags út yfir öll endimörk að mínu viti … (Gripið fram í: Velsæmismörk.) Velsæmismörk, það er rétt hv. þingmaður, meðal annars með því að einangra bannið við utanvegaakstri við hálendislínuna og sleppa láglendinu, það mætti sem sagt vera leyfilegt að fara utan vega á láglendi, (Forseti hringir.) þá kemur Sjálfstæðisflokkurinn og segir: Nei takk, ekkert svona. Við viljum utanvegaakstur áfram. (Forseti hringir.)

Ég spyr, hæstv. forseti: Af hverju er þetta mál ekki á dagskrá þegar það var tekið út úr nefnd í dag?