140. löggjafarþing — 128. fundur,  19. júní 2012.

fundarstjórn.

[23:14]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég er komin til að tjá forseta skilning minn á þeirri staðreynd að það er búið að ná ákveðnu samkomulagi um þinglok. Það er fjöldinn allur af málum sem ég hefði gjarnan viljað sjá afgreidd á þessu þingi en það hefur ekki gengið eftir. Þar vil ég nefna til dæmis rannsókn á lífeyrissjóðnum sem allir þingmenn ályktuðu um nauðsyn á að fara í. Við framsóknarmenn höfum líka lagt áherslu á að það verði farið í rannsókn á einkavæðingu bankanna, bæði hina fyrri og síðari, auk þess sem það er synd að sjá að ýmis góð mál sem var samstaða um í velferðarnefnd hafa ekki náð í gegn.

Ég vil hins vegar leggja áherslu á að við í velferðarnefnd viljum garnan eiga gott samstarf við flutningsmenn margra góðra þingmannamála um að flytja þau sem allra fyrst. Ég hef svo sannarlega í hyggju að flytja mitt mál um rannsókn á lífeyrissjóðnum og ég hvet okkur til að styðja það, auk þess sem ég vona svo sannarlega að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd muni afgreiða fljótt og vel tillögu um rannsókn á (Forseti hringir.) fyrri og síðari einkavæðingu bankanna.