140. löggjafarþing — 128. fundur,  19. júní 2012.

nauðungarsala, aðför, meðferð einkamála og fjármálafyrirtæki.

716. mál
[23:25]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Allsherjar- og menntamálanefnd hefur fjallað um málið eftir 2. umr. og ég er framsögumaður að breytingartillögu sem varð niðurstaða meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar að flytja í framhaldi af þeim athugasemdum sem komu frá réttarfarsnefnd á fundi nefndarinnar. Þetta er sem sagt breytingartillaga við frumvarp til laga um breyting á lögum um nauðungarsölu, lögum um aðför, lögum um meðferð einkamála, lögum um fjármálafyrirtæki og lögum um gjaldþrotaskipti. Tillagan er svohljóðandi:

8. gr. frumvarpsins falli brott.

11. gr. frumvarpsins falli brott.

12. gr. orðist svo:

Lög þessi öðlast þegar gildi. Þó öðlast 7. gr. gildi 15. júlí 2012.

Er það mat nefndarinnar, og tekur hún þar með undir ábendingar réttarfarsnefndar, að þær breytingar sem gerðar voru á málinu við 2. umr., á þskj. 1589, skapi óvissu og þurfi nánari skoðunar við. Af þeim sökum er lagt til að 8. og 11. gr. frumvarpsins verði felldar brott.

Þá hefur komið í ljós að mistök urðu við breytingu á gildistökuákvæði frumvarpsins og á gildistökudagsetningin 15. júlí 2012 aðeins við um 7. gr. frumvarpsins, aðrar greinar taka þegar gildi við samþykkt málsins.

Þær greinar sem munu falla út var ég flutningsmaður að ásamt hv. þingmönnum Magnúsi Norðdahl og Margréti Tryggvadóttur. Við tökum undir þessar tillögur meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar í trausti þess að réttarfarsnefnd, innanríkisráðuneytið og Alþingi taki höndum saman til að koma til móts við þann hóp sem hefur þurft að þola mjög mikið óréttmæti á grundvelli ólögmætra lána frá fjármálafyrirtækjum þessa lands, þ.e. gengistryggðu lánanna svokölluðu.

Ég tel brýnt að það mál sem við erum að tala um verði samþykkt á Alþingi. Þetta er mikilvæg réttarbót sem við erum að taka afstöðu til með lengdum frestum til að tryggja að fjármálafyrirtæki gangi ekki að eignum sem eru að veði vegna lána sem hugsanlega er óvissa um hvað varðar lögmæti og ekki hvað síst er verið að breyta gjafsóknarákvæðinu til að tryggja fólki aukin mannréttindi og aukinn aðgang að aðstoð ef þarf að höfða mál sem hafa almenna þýðingu eða verulega þýðingu fyrir hagsmuni viðkomandi.

Ég hvet ykkur til að styðja þessa breytingartillögu og styðja svo málið í heild.