141. löggjafarþing — þingsetningarfundur

forseti Íslands setur þingið.

[14:10]
Horfa

Forseti Íslands (Ólafur Ragnar Grímsson):

Gefið hefur verið út svohljóðandi bréf:

Forseti Íslands gjörir kunnugt:

„Ég hefi ákveðið, samkvæmt tillögu forsætisráðherra, að Alþingi skuli koma saman til fundar þriðjudaginn 11. september 2012.

Um leið og ég birti þetta er öllum sem setu eiga á Alþingi boðið að koma nefndan dag til Reykjavíkur og verður þá Alþingi sett að lokinni guðsþjónustu í Dómkirkjunni er hefst kl. 13.30.

Gjört á Bessastöðum, 6. september 2012.

Ólafur Ragnar Grímsson.

 

__________________

Jóhanna Sigurðardóttir.

 

Forsetabréf um að Alþingi skuli koma saman þriðjudaginn 11. september 2012.“

Samkvæmt bréfi því sem ég hef nú lesið lýsi ég því yfir að Alþingi Íslendinga er sett.

Nú er ýtt úr vör á nýjum tíma, vikum fyrir vetrarbyrjun og breytingin gerð í þágu betri vinnubragða. Alþingi hefur skipað einstæðan sess í íslenskri sögu, er elsta stofnun þjóðarinnar, burðarás í baráttu fyrir fullveldi og höfuðstoð í lýðveldisskipan. En verkefnin hafa tekið stakkaskiptum og straumar tímans jafnan mótað starfshætti. Að hefjast nú handa fyrr en venja var sýnir vilja til að mæta nýjum kröfum, finna form sem reynast farsæl. Samt er vandi Alþingis enn dagskrárefni eins og hæstv. forsætisráðherra áréttaði 17. júní í hátíðarræðu á Austurvelli. Fjöldi þingmanna hefur og lýst áhyggjum af stöðu þess í þjóðarvitund. Löggjafinn er hornsteinn lýðræðis og virðing hans forsenda siðaðra hátta. Átökum eru settar skorður með því að allir lúti niðurstöðum úr umræðum og atkvæðagreiðslum.

Með lögum skal land byggja er meitlað kjarnyrði úr fornum sögum en líka í aðdraganda nýrrar aldar inntak þáttaskila í mörgum Evrópulöndum. Hin fleygu orð enduróma sáttmála um gagnkvæmt traust í samskiptum manna. Sú stofnun sem setur lögin þarf að njóta trausts, ella er hætta á að ákvarðanir glati áhrifamætti. Sé virðingin víðtæk og varanleg verður stjórnkerfið farsælt líkt og staða dómstólanna er grundvöllur réttarríkis. Því er mikið í húfi fyrir okkur öll, þjóðina og stofnanir hennar, að á komandi vetri verði tekið á vanda Alþingis, leitað lausna til að efla álit þess meðal almennings.

Það er brýnt fyrir Alþingi sjálft, fulltrúa sem kjörnir eru hér til starfa. Það er brýnt fyrir flokka, bæði í stjórn og stjórnarandstöðu, því að enginn veit hvernig næstu kosningar fara og ekki heldur hver verður síðan skipan ríkisstjórnar. Það er líka brýnt fyrir forseta Íslands því að ella munu áfram aukast kröfur um afskipti hans af setningu laga umfram það sem hefur tíðkast. Slíkur var boðskapur margra, kjósenda og einstakra frambjóðenda, í aðdraganda kosninganna á liðnu sumri.

En það er þó einkum brýnt fyrir þjóðina sjálfa því að hún verður að geta treyst Alþingi. Á vinnustöðum og í byggðarlögum hljóma raddir á þann veg, það eru einlægar óskir um aukið traust til Alþingis. Í ferðum mínum um landshlutana, í viðræðum nú í vor við tugþúsundir Íslendinga, varð mér æ ljósara að undiraldan fer vaxandi. Á síðustu dögum fyrir forsetakosningar var þunginn slíkur að vandi Alþingis var helsta umræðuefnið. Alls staðar var spurt: Hvað er til ráða?

Forseti lýðveldisins getur ekki rækt störf sín á farsælan hátt nema Alþingi njóti virðingar og trausts meðal þjóðarinnar. Því ráða tengsl forsetans við Alþingi í stjórnskipun landsins og það sýnir líka saga hins unga lýðveldis. Þrír forsetanna hafa að auki fyrst axlað lýðræðisábyrgð með daglegum störfum í þessum sal. Í því felst á vissan hátt þakkarskuld þeirra við þessa stofnun. Það er því í senn skylda mín í kjölfar kosninganna og einlægur vilji að bjóða liðsinni við að efla á ný virðingu Alþingis, traust þess meðal þjóðarinnar, liðsinni sem falist getur í samræðum, hugmyndasmíð og miðlun reynslu, samstarfi sem þjónar hagsmunum allra — forseta, þings og þjóðarinnar.

Við þurfum, kjörnir fulltrúar og almenningur, að ræða viðfangsefnið með yfirsýn og gagnkvæma virðingu að leiðarljósi, reiðubúin að meta ólík sjónarmið. Lausnin er hvorki bundin við einstaklinga né háð því hvernig sæti skipast í þingsalnum. Þróunin síðustu árin sýnir að ræturnar eru dýpri, samofnar venjum og verklagi, tengdar ákvörðunum um verkefni. Líkt og fjölskyldur og samfélög sníða sér stakk eftir vexti er gagnlegt að meta hve mörg stór átakamál Alþingi getur á hverjum tíma leitt til lykta. Sé því ætlað um of er hætt við að störfin lendi í öngstræti líkt og gerðist á liðnu vori. Upplausn og deilur birtist þjóðinni þá á sérhverjum degi.

Vegurinn til aukinnar virðingar Alþingis er því líka varðaður hófsemd við val á verkefnum, að löggjöf sé jafnan á þann veg að hún njóti víðtæks trausts og stuðnings. Það er vissulega erfitt að velja enda málin mörg sem brenna á þingmönnum og þjóðinni, en reynslan sýnir að átökum þarf að stilla í hóf eigi Alþingi að búa við traust sem tryggir varanlegan árangur. Löggjöf byggð á trúnaði fólksins er aðalsmerki siðmenningar sem við Íslendingar viljum varðveita, sáttmálans sem okkur ber að halda í heiðri.

Því er skylda okkar allra sem kjörin erum til ábyrgðar að taka höndum saman svo Alþingi hljóti á ný þann sess sem sæmir elstu stofnun þjóðarinnar og lýðræðisskipan samfélagsins. Með það heit í huga bið ég alþingismenn að rísa úr sætum og minnast ættjarðarinnar.

[Þingmenn risu úr sætum og forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, mælti: „Heill forseta vorum og fósturjörð. Ísland lifi.“ Tóku þingmenn undir þau orð með ferföldu húrrahrópi.]

[Strengjakvartett flutti lagið Hver á sér fegra föðurland.]