141. löggjafarþing — 2. fundur,  12. sept. 2012.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[20:12]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Góðir Íslendingar. Við höfum öll fylgst með fréttum af fárviðri á Norðurlandi og afleiðingum þess. Ekki er enn ljóst hversu mikið tjón hefur orðið en einboðið er að Alþingi fylgist náið með þessu máli og bregðist við eftir því sem þörf krefur. Ég sendi bændum fyrir norðan og öllu björgunarfólki baráttukveðjur.

Frú forseti. Þess er beðið að Alþingi setji stefnuna á mál sem skipta sköpum fyrir allan þorra almennings, að hér verði blásið lífi í vinnumarkaðinn, fyrirtækjum gert kleift að ráða fleiri í vinnu og að hinn vinnandi maður beri meira úr býtum eftir vinnudag sinn en nú er raunin. Þess er beðið að stjórnvöld láti af skattpíningarstefnu sinni, elti ekki uppi atvinnugreinar sem fela í sér vaxtarbrodd nýs hagvaxtarskeiðs og leggi á þær þungar byrðar í stað þess að sjá möguleikana sem felast í því að efla og hvetja slíkar greinar, okkur öllum til hagsbóta. Þess er beðið að fá að gera upp reikninginn við ríkisstjórnina í kosningunum í vor.

Enginn efast um að það hafi verið markmið ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur að skapa störf og vinna vel í þágu þjóðarinnar, finna leiðir út úr vandanum og hefja nýtt endurreisnartímabil. Án vafa hafa þau ætlað að gera sitt besta. Gallinn er bara sá að það dugar ekki til og hvorki leikur að tölum né orðum brauðfæðir nokkurn mann.

Við erum svo lánsöm að þrátt fyrir ýmis áföll og atlögu ríkisstjórnarinnar hefur árað vel í ýmsum greinum, í sjávarútvegi, ferðaþjónustu og áliðnaðinum. Rétt viðbrögð stjórnvalda haustið 2008 lögðu einnig grunninn að þeim bata sem þó er merkjanlegur. Neyðarlögin og samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn voru rétt spor, gæfuspor sem stigin voru án stuðnings Vinstri grænna. Á það þarf nefnilega að minna þegar fyrrverandi fjármálaráðherra, núverandi atvinnuvegaráðherra, talar um hetjulegt björgunarstarf sitt við að draga landið frá brún gjaldþrots. Það þarf að minna á að það sem hefur haft mest um það að segja að færa Ísland hraðar í átt til efnahagslegs bata en ýmis samanburðarríki eru verk fyrri ríkisstjórnar. Svo verður ekki hjá því komist að nefna þegar talað er um að staðan hér sé betri en í ýmsum samanburðarríkjum að flest eru þau í Evrópusambandinu góða sem forsætisráðherra minntist reyndar ekki á í ræðu sinni áðan og það þrátt fyrir að það sé í orði eitt helsta stefnumál ríkisstjórnarinnar að ganga í Evrópusambandið.

Evrópuþingið sendi Íslendingum í dag kaldar kveðjur í makríldeilunni og hótar viðskiptaþvingunum ef ekki verði látið undan kröfum þess. Málflutningur þess er sagður byggja á kröfunni um sjálfbærar veiðar. Það er líklega kominn tími til þess fyrir okkur á þinginu að fordæma með sérstakri ályktun ofveiðar Evrópusambandsins á eigin stofnum og gegndarlaust brottkast. Þessi slæma umgengni sambandsins um eigin fiskimið hefur nefnilega stórskaðað hagsmuni okkar erlendis enda hefur þessi hegðun rýrt mannorð fiskveiðiþjóða og spillt mörkuðum. Það ætti ekki að þurfa að taka það fram í þessum sal að undir engum kringumstæðum verður fiskveiðihagsmunum okkar fórnað vegna hótana eða bolabragða Evrópusambandsins. Í þessum deilum okkar við Evrópusambandið kristallast sú staðreynd að við eigum ekkert erindi í viðræður við Evrópusambandið.

Frú forseti. Þessa dagana verður forsætisráðherra tíðrætt um árangur ríkisstjórnarinnar. En hvernig er sá árangur mældur? Með því að færa sífellt til viðmiðin má eflaust komast að þeirri niðurstöðu að árangur hafi náðst á þessu sviðinu eða hinu. Eftir sem áður erum við í dag ekki á þeim stað sem að var stefnt. Við ættum að vera komin miklu lengra í endurreisnarstarfinu. Hvernig væri til dæmis að bera árangurinn saman við þau markmið sem við settum okkur þegar þessi vegferð hófst? Hvernig væri að bera árangurinn saman við áætlunina sem við gerðum með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum eða stöðugleikasáttmálann sem ríkisstjórnin gerði við aðila vinnumarkaðarins? Þar var fjallað um hagvöxt, þar var fjallað um jafnvægi í ríkisfjármálum og um atvinnustig. Þar var líka fjallað um fjárfestingu.

Ef borið er saman við þessar áætlanir er auðséð að niðurstaðan er vonbrigði. Hér var stefnt að 4,5% hagvexti árið 2011, líka árið 2012. Niðurstaðan er rúmlega 2%. Hér var stefnt að sköpun fjölda starfa. Þau láta á sér standa. Ef við rýnum aðeins í tölur Hagstofunnar sjáum við að nú eru færri starfandi og fleiri utan vinnumarkaðar en á sama tíma í fyrra. Samt segir forsætisráðherra að næstum 5 þús. ný störf hafi orðið til á árinu. Kannski átti hún við að þau nýju störf hefðu orðið til í Noregi. Hér var stefnt að stóraukinni fjárfestingu. Hún skilar sér ekki.

Takið eftir þessu, ríkisstjórnin frestaði áformum um hallalaus fjárlög með vísan til þess að áformin hefðu gengið hraðar og betur eftir en að var stefnt. Í framhaldinu var svo farið tugi milljarða fram úr fjárlögum og í fyrra var fjárlagahallinn 90 milljarðar. Það dugar ekki að segja að að hluta til hafi verið um einskiptiskostnað að ræða vegna þess að þann einskiptiskostnað þarf líka að greiða. Vandinn óx um 90 milljarða í fyrra. Þetta var árið 2011, sama ár og Samfylkingin ályktaði á landsfundi sínum að búið væri að loka fjárlagagatinu og nú væri búið að snúa halla yfir í afgang. Það ár var farið 90 milljarða í halla.

Forsætisráðherra fagnar auknum jöfnuði. Tölurnar sýna hins vegar að sá tekjujöfnuður sem mælist byggir annars vegar á tekjuhruni og hins vegar á stórauknum sköttum, ekki síst á millistéttina í landinu. Hverjir eiga að gleðjast yfir þessu? Enginn hefur það betra, ekki einu sinni láglaunafólkið, en forsætisráðherrann fagnar. Leiðin, góðir landsmenn, er ekki að jafna launin niður á við heldur að lyfta öllum upp neðan frá. Það er leiðin. Hvernig gengur annars að framkvæma þá vitlausu stefnu að enginn opinber starfsmaður megi hafa hærri laun en forsætisráðherra? Gengur það ekki ágætlega, herra velferðarráðherra?

Á þessu kjörtímabili hefur Sjálfstæðisflokkurinn lagt fram fjölda mála til að styðja við fjölskyldurnar og atvinnulífið í landinu. Árlega höfum við lagt fram ítarlegar tillögur um aðgerðir fyrir heimilin og hvernig endurreisa megi íslenskt efnahagslíf, beinar aðgerðir eins og lækkun bensíngjalda sem hefðu átt að vera einfaldari í framkvæmd og skila sér strax, skattalækkanir, flýtimeðferð ágreiningsmála um gengislán, endurskoðun tolla og gjalda til að lækka vöruverð ásamt lægri virðisaukaskatti á barnaföt sem og leiðir til að örva fjárfestingar fyrirtækja, hvata til að ráða nýja starfsmenn auk uppbyggingar í orkuframleiðslu, svo nokkur dæmi séu nefnd. Við höfum lagt áherslu á aðhald í ríkisfjármálum. Við vildum að það yrði aukið með því að innleiða fjármálareglu og koma þannig í veg fyrir skuldasöfnun, skapa skilyrði fyrir lægri vexti í landinu og minnka hagsveiflur. En við sjáum í fjárlagafrumvarpinu hvaða undirtektir slík fyrirhyggja fær.

Nú er sagt að það séu tækifæri að nýju til að auka við útgjöld ríkissjóðs og forsætisráðherra listar upp tækifærin, verkefnin, sem á að auka útgjöldin til. Þetta eru röng skilaboð og þetta er hættuleg stefna. Fólkinu í landinu er enginn greiði gerður með því að horfa fram hjá skuldavanda ríkissjóðs. Nú fara 90 milljarðar á ári í vaxtagreiðslur. Við erum ekki að greiða niður neinar skuldir en jafnvel þótt við byrjuðum í dag að verja 50 milljörðum í skuldaniðurgreiðslu á ári og gerðum það í tíu ár í röð mundum við einungis losna við 1/3 skuldanna og við mundum skulda enn meira en við værum sátt við. Þetta stendur allt í fjárlagafrumvarpinu. Við þessar aðstæður er það glapræði að segjast ætla að selja eignir til að ráðstafa í ný verkefni og standa undir hallanum. Eignasala verður að ganga til niðurgreiðslu skulda. Það eru eðlileg, sanngjörn og heiðarleg skilaboð sem eiga að berast frá þinginu. Eignasala til að viðhalda hallarekstri ætti ekki að koma til greina hjá einum einasta stjórnmálaflokki á þingi.

Frú forseti. Ef ríkisstjórnin tryði því í raun að fólki án atvinnu væri að fækka og vinnumarkaðurinn að stækka, ætti hún þá ekki að standa við gefin loforð og draga úr álögum á fyrirtæki eins og gert var ráð fyrir í kjarasamningum síðasta árs? Nei, það er ekki gert. Nú eru kynntar til sögunnar fjölmargar nýjar álögur. Tryggingagjaldið stendur í stað þrátt fyrir að því sé haldið fram að atvinnuleysi fari minnkandi. Það er brugðist við vaxtarmöguleikum ferðaþjónustunnar með því að hóta þreföldun virðisaukaskattsins og hækkun vörugjalda á bílaleigufyrirtæki og fyrst ég er farinn að ræða um skattahækkanir get ég nefnt að heimilin í landinu fá 800 milljóna skattbyrði vegna matarinnkaupa. Það kemur fram í formi vörugjalda.

Forsætisráðherrann talar um stórkostlegan árangur í efnahagsmálum. Á meðan eykur hann byrðar og álögur á fyrirtæki og fólk fjórða árið í röð. Þessu er svo fylgt eftir með því að tala enn einu sinni um að kollvarpa fiskveiðistjórnarkerfinu. Á hverju einasta ári er talað um að gera gagngera meiri háttar uppstokkun á því kerfi þar sem forsætisráðherra sér ekki að það er stefna ríkisstjórnarinnar sem er í þessu máli orðin að sérstöku efnahagslegu vandamáli.

Staða heimilanna er okkur líka mikið áhyggjuefni. Við sjáum að fjöldi nýrra heimila er að lenda í greiðsluvanda. Margir þeirra sem hafa glímt við vandann hafa enn ekki fengið fullnægjandi úrræði og niðurstaðan af allri þessari stöðu er afskaplega skýr. Hér á Alþingi verður að leggja áherslu á mál sem auka ráðstöfunartekjurnar og tryggja atvinnu.

Frú forseti. Ég fagna að lokum umræðunni um virðingu þingsins og hlutverk sem bæði forseti Íslands, forseti Alþingis og forsætisráðherra komu inn á í gær og í dag. Upphefðin kemur ekki einungis að utan, þingmenn þurfa að umgangast starf sitt og þessa merku stofnun af virðingu og væntumþykju inn á við jafnt sem út á við. Við eigum að einbeita okkur að því að deila á málefni en ekki menn og við munum svo sannarlega ekki standa í vegi fyrir málum sem horfa til framfara. Það eitt dugar þó ekki að form málanna sé í lagi, að þau séu komin fram á réttum tíma, ef innihald þeirra er ónýtt.

Vonandi endurspeglar árangur þessa þings væntingar almennings til þess. Ég get tekið undir það sem forsætisráðherra sagði áðan, það er svo miklu meira sem sameinar okkur sem þjóð en sundrar. Það finnum við þegar bjátar á og við höfum borið gæfu til að standa saman í gegnum ýmiss konar erfiðleika. Þegar rykið hefur fengið að setjast eins og það hefur gert á þessum fjórum árum finnum við á ný þennan streng sem liggur á milli okkar, strenginn sem bindur okkur saman sem eina þjóð.