141. löggjafarþing — 2. fundur,  12. sept. 2012.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:07]
Horfa

Atli Gíslason (U):

Frú forseti. Kæru landsmenn. Í kjölfar hrunsins haustið 2008 var skipuð sérstök rannsóknarnefnd Alþingis sem falið var að fara í saumana á ástæðum hrunsins. Eftir að skýrsla nefndarinnar var lögð fram í ársbyrjun 2010 var níu manna þingmannanefnd sett á stofn til að fjalla um skýrsluna og móta tillögur að viðbrögðum Alþingis við niðurstöðum hennar. Nefndin skilaði af sér skýrslu í september 2010. Það er ærið tilefni til að rifja upp helstu niðurstöður, sérstaklega í ljósi þess litla trausts sem Alþingi virðist njóta meðal þjóðarinnar.

Meginniðurstöður skýrslu þingmannanefndar eru um formið, að það þurfi að endurskoða verklag við framlagningu stjórnarfrumvarpa með það að markmiði að auka sjálfstæði þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu, leggja meiri áherslu á eftirlitshlutverkið og auka fagmennsku við undirbúning löggjafar, að marka þurfi skýr skil milli löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins og að löggjafarvaldið eigi ekki að vera verkfæri framkvæmdarvalds og oddvitaræðis. Það þarf að efla rökræðusiði á Alþingi. Það var mat þingmannanefndarinnar að skýrsla rannsóknarnefndarinnar væri áfellisdómur yfir stjórnsýslunni og að oddvitaræðið og verklag þess væri óásættanlegt. Alþingi samþykkti einróma þingsályktun í september 2010 á grundvelli niðurstaðna skýrslu þingmannanefndarinnar og var miðað við að úrbótum yrði lokið 1. október 2012, eftir 19 daga. Horfi nú hver á niðurstöðurnar.

Frú forseti. Því miður er staðan sú að við eigum býsna langt í land um úrbætur þótt ýmislegt hafi áunnist. Við berum öll ábyrgð á því, en þyngstu ábyrgðina bera oddvitar ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnin. Ríkisstjórnin hefur að mínu mati borið Alþingi ofurliði og sýnt ofríki. Hvert stórmálið af öðru frá ríkisstjórninni hefur verið lagt fyrir Alþingi, illa karað, í andstöðu við hagsmunaaðila og sum á síðustu stundu rétt fyrir þinglok. Um nokkur þeirra hefur jafnframt verið bullandi ágreiningur innan ríkisstjórnarflokkanna. Þar nægir að nefna frumvarp um fiskveiðistjórn. Alþingismenn hafa verið settir í óþolandi stöðu. Við höfum fyrir bragðið setið í skotgröfum, kappræðu átaka og ófaglegra vinnubragða.

Því miður er ekki að sjá að það verði breyting á þessu á þessu þingi miðað við þau 177 mál sem ríkisstjórnin hyggst leggja fyrir löggjafarþingið sem fer í hönd. Þrátt fyrir skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og þingsályktunartillögu sem Alþingi samþykkti samhljóða hefur staðan um margt versnað ef eitthvað er frá því fyrir hrun. Ekki bætir úr skák að ríkisstjórnin hefur klofið þjóðina með umsókn að ESB þegar svo brýnt var að ná samstöðu um uppbyggingu eftir hrun og eytt milljörðum í þá umsókn og fleira í stað velferðar, skuldavanda heimilanna og annarra forgangsmála.

Að lokum þetta, frú forseti: Það er ekki svo að Alþingi hafi ekki leitast við að leggja sitt af mörkum, því fer fjarri. Ég hef rætt um þingsályktunartillögu Alþingis frá september 2010 og eindreginn vilja þingsins til úrbóta. Alþingi hefur einnig staðið að útgáfu Handbókar um undirbúning og frágang lagafrumvarpa ásamt forsætisráðuneytinu og þáverandi dóms- og kirkjumálaráðuneyti. Það var árið 2007. Þar liggja fyrir ítarlegar leiðbeiningar um lagasetningu og undirbúning hennar í ráðuneytum, um hlutverk ráðuneyta. Menn spyrja hvort ný lagasetning sé nauðsynleg um samningu frumvarps, um samráð við undirbúning og gerð frumvarpa, pólitískt samráð, fullt faglegt samráð milli ráðherra, samráð milli hagsmunaaðila og almennings. Menn vilja líka við undirbúninginn að áhrifin séu metin, afleiðingar fyrir hagsmunaaðila, afleiðingar fyrir tiltekna mikilvæga almannahagsmuni og atriði er lúta að framkvæmd.

Þetta er ekki að gera sig, það veldur vanda hér á þingi. Því miður heyrir til undantekninga allt frá því að þessi handbók kom út að þessum leiðbeiningum hafi verið fylgt. Fyrir bragðið koma frumvörp oftar en ekki fyrir Alþingi slælega unnin, illa kynnt og í andstöðu við hagsmunaaðila.

Frú forseti. Það er mál að linni. Við getum gert mun betur og endurvakið þannig traust til og virðingu fyrir Alþingi. Ég óska landsmönnum öllum gæfu og farsældar og sendi sérstakar stuðnings- og baráttukveðjur norður á land.