141. löggjafarþing — 2. fundur,  12. sept. 2012.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:24]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Hvaða eiginleikar eru helst taldir einkenna íslenska þjóðarsál þegar í harðbakkann slær? Það er dugnaður, áræði, þrjóska, að halda bjartsýni sinni og gefast aldrei upp fyrr en í fulla hnefana. Þessa eiginleika tel ég hafa komið skýrt fram á þeim tíma sem liðinn er frá hruni. Þjóðin öll hefur þurft að vinna hörðum höndum að endurreisninni, hver og einn á sínum forsendum og mörgum fjölskyldum hefur reynst mjög erfitt að ná endum saman og tryggja fjárhagslega afkomu sína.

Það verður að vera eitt af okkar fyrstu verkum þegar við sjáum fyrir endann á halla ríkissjóðs að bæta kjör þeirra sem minnst mega sín í hópi aldraðra, öryrkja, einstæðra foreldra og barnafjölskyldna enda bera ný fjárlög þess merki þar sem m.a. er lagður til stóraukinn stuðningur við barnafjölskyldur í landinu. Ég segi það hiklaust að allur sá mikli árangur sem náðst hefur á svo skömmum tíma sýnir í raun samtakamátt þjóðarinnar í hnotskurn og er dæmi um það hvað lítil þjóð fær áorkað ef vilji er fyrir hendi og við trúum á okkur sjálf og þau tækifæri sem búa í okkar góða landi og þann mannauð sem það býr yfir.

En þetta tímabil hefur heldur ekki verið sársaukalaust fyrir þjóðina. Það hefur oft verið þyrnum stráð en þegar uppskeran er að skila sér jafn vel og nú og allar hagtölur og vísbendingar gefa til kynna að okkur er að takast að vinna okkur hraðar út úr kreppunni en aðrar Evrópuþjóðir, er auðvelt að gleyma og ýta til hliðar neikvæðum hugsunum um þau ljón sem hafa verið í vegi uppbyggingar í landinu.

Kröfur til vinstri stjórnar eru miklar og þær eiga líka að vera það. Þjóðin vildi ekki hægri stjórn eftir hrun. Hún treysti betur vinstra félagshyggjufólki til að glíma við afleiðingar kreppunnar. En vinstri stjórnir eiga ekki að vera vinnukonur í tiltektum fyrir hægri öflin á einhverju árabili. Þær verða líka að fá svigrúm við eðlilegar aðstæður til að koma á þjóðfélagsbreytingum sem stuðla að jöfnuði og réttlæti til lengri tíma.

Það er umhugsunarvert að sá hagvöxtur sem náðst hefur í landinu eftir hrun hefur ekki verið drifinn áfram af stóriðjuframkvæmdum á kostnað náttúrunnar. Sem landsbyggðarmanneskju er mér málefni hennar ofarlega í huga. Það hafa margar byggðir glímt lengi við neikvæða byggðaþróun og er það mikið áhyggjuefni. Ég tel að meðal annars megi rekja það til langvarandi stefnuleysis í atvinnu- og byggðamálum og hægagangs í uppbyggingu samgöngumála þegar vel áraði. Það eru því bundnar miklar vonir við eflingu sóknaráætlunar landshlutanna og aukið fjármagn til samgöngubóta sem gerir okkur kleift að flýta jarðgangaframkvæmdum á Vestfjörðum og á Austfjörðum og er það mikið fagnaðarefni.

Sama má segja um flutningsjöfnunarkerfið sem loksins er komið á sem jafnar samkeppnisstöðu fjarlægari byggða. Nú loks í september verða strandsiglingar boðnar út sem einnig eiga eftir að draga mikið úr flutningskostnaði og létta á vegakerfinu. Uppbygging fjölda hjúkrunarrýma er í gangi víða um landsbyggðina svo að mörgum góðum verkefnum hefur verið hrint í framkvæmd við þessar fordæmalausu aðstæður.

Landsbyggðin á að mínu mati mikla möguleika og bjarta framtíð ef rétt er á málum haldið. Ferðaþjónustan, fjölbreyttur landbúnaður, aukin úrvinnsla sjávarafla, vinnsla afurða heima á búum og í héraði, handiðnir, skapandi hugvit og framleiðsla sem byggir á menningu, aðföngum og hefðum kynslóðanna. Alls staðar eru tækifærin ef landsbyggðin fær að njóta sín og ef öflugir menntunarmöguleikar eru til staðar, hefur landsbyggðin mikil sóknarfæri til að styrkja sig í sessi.

Trúverðugleiki ríkisstjórnarflokkanna er í veði þegar kemur að jafnveigamiklum grundvallarmálum og breytingu á fiskveiðistjórnarkerfinu, rammaáætlun og stjórnarskránni. Þar verðum við að rísa undir þeim væntingum sem gerðar voru til þessara flokka og klára málin. Annað er ekki í boði.

Það hefur ekki farið fram hjá neinum sú gífurlega hagsmunagæsla og skjaldborg sem reist hefur verið um núverandi fiskveiðistjórnarkerfi. Það tókst þó að ná fram í vor sanngjarnri auðlindarentu af þeim sem nýta sameiginlega sjávarauðlind þjóðarinnar. Þeim fjármunum mun verða vel varið í fjölbreytta uppbyggingu víðs vegar um landið strax á næsta ári í samgöngum, menntun og alhliðauppbyggingu sóknaráætlunar. En óréttlætið í kvótakerfinu verður ekki bara leyst með greiðslum útgerða á veiðigjaldi. Það þarf að rista dýpra í kerfið sem þróast hefur í tært markaðskerfi gegnum árin.

Mikil samþjöppun aflaheimilda hefur orðið hjá fáum stórum fyrirtækjum og afkoma íbúa sjávarbyggða verið ótrygg. Viðskiptalegar ákvarðanir eru teknar hjá fyrirtækjum sem leiða til þess að óöryggi eykst og þetta höfum við rækilega verið minnt á, nú síðast í Vestmannaeyjum. Það eru ekki bara litlu sjávarþorpin sem kvótakerfið bítur heldur getur það rifið lífsbjörgina af fólki hvenær sem er ef engar raunverulegar skorður eru settar á framsal aflaheimilda. Það á ekki að ákvarðast í fjármálastofnunum hvernig framtíðarskipulag fiskveiðistjórnarkerfisins á að vera. Það eru lýðræðislega kjörin stjórnvöld sem eiga að setja lagaumgjörð um fiskveiðistjórnarkerfið. Það á að þjóna heildarhagsmunum þjóðarinnar og mæta réttmætum kröfum um jafnræði og atvinnufrelsi í greininni.

Nú er tækifæri til breytinga. Það tækifæri verður ef til vill ekki aftur í boði. Góðir landsmenn. Það er full ástæða til að fara inn í veturinn fullur af bjartsýni eftir gott sumar því tækifærin eru óteljandi fyrir íslenska þjóð. — Góðar stundir.