141. löggjafarþing — 2. fundur,  12. sept. 2012.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:31]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Kæru landsmenn. „Í þúsund ár bjó þjóð við nyrstu voga, mót þrautum sínum gekk hún djörf og sterk“, kvað Davíð Stefánsson skáld forðum fyrir alþingishátíðina 1930.

Nú rúmum 80 árum síðar eiga þessi orð vel við. Íslenska þjóðin sem býr á eldfjallaeyju í norðurhöfum er djörf og sterk. Með samtakamætti getum við gengið gegn þeim þrautum sem náttúran býður okkar. Nú síðastliðna daga gekk yfir hamfaraveður á Norðurlandi með miklum búsifjum sem minnir okkur á þá miklu samhjálp og samhug sem íslenska þjóðin býr yfir. Fátt er jafngóður vitnisburður um það og barátta íslensks björgunarsveitarfólks síðustu daga. Hugur okkar er fyrir norðan.

Íslenskir bændur eru okkur eyjaskeggjum jafnnauðsynlegir og vatnsauðlindir okkar, jafnmikilvægir okkur og fiskurinn í sjónum, fallvötnin okkar og hitinn í jörðinni. Í bankahruninu voru þeir gjaldeyrisvaraforði þjóðarinnar, matarkista, því að hvar værum við stödd í miðjum gjaldeyrishöftum ef við værum háð öðrum þjóðum um matvæli? Við megum aldrei gleyma aðstæðum okkar í náttúruvá, við þurfum að tryggja öryggi allra landsmanna, hvort sem er á landsbyggðinni eða á höfuðborgarsvæðinu. Í gegnum árin hefur náttúran verið dugleg að minna þjóðina á vald sitt með jarðskjálftum, eldgosum, flóðum og óútreiknanlegu veðurfari. Þjóðin hefur þó ávallt borið sigur úr býtum með samvinnu og samhug í fyrirrúmi.

Rýmingaráætlun fyrir höfuðborgarsvæðið hefur enn ekki verið unnin, sem leiðir hugann að því að staldra verður við með byggingu nýs Landspítala á meðan unnið er að úrbótum í samgöngumálum út af höfuðborgarsvæðinu. Því verðum við að tryggja öryggi þjóðarinnar hvort heldur er úti á landi eða innan höfuðborgarsvæðisins. Það er sannfæring mín að fjármunum væri betur varið í samgönguúrbætur en nýjan Landspítala, sérstaklega í ljósi þess að efla þarf spítalana í hinum landsfjórðungunum til að anna sjúkrahússinnlögnum, skapist vá á höfuðborgarsvæðinu. Málið þarf að skoða heildstætt á landsvísu en ekki einblína á eina uppbyggingu á einum stað. Færa má rök fyrir þessum hugmyndum út frá varaflugvöllunum sem við höfum í millilandafluginu. Þeir sönnuðu sig í nýafstöðnum eldgosum, þegar flugið lagðist af í Evrópu um stund var hægt að fljúga til og frá landinu.

Að þessu sögðu er einkar mikilvægt að við sem þjóð göngum fram sem ein heild en ekki sem sundraður hópur, aldrei er mikilvægara en nú að standa saman að stórum hagsmunamálum þjóðarinnar. Ég hafna sundrungu landsbyggðar og höfuðborgar, dreifbýlis og þéttbýlis, samvinna Stór-Reykjavíkursvæðisins og landsbyggðarinnar er lífsnauðsynleg því að hvort um sig styður hitt.

Á landsmóti hestamanna sem haldið var innan borgarmarkanna í sumar sást það og sannaðist að landsbyggðin og Stór-Reykjavíkursvæðið vinna vel saman þegar svo ber undir. Í því tilfelli var sameinast um íslenska hestinn en þess má geta að hann skapar okkur rúma tvo milljarða í gjaldeyristekjur á hverju ári.

Okkur ber að standa vörð um hagsmuni landsins, lögsögunnar, og að verjast sameiginlega ásókn erlendra þjóða í auðlindir okkar eins og við höfum gert í áratugi. Við þurfum stöðugleika en ekki sundrungu, við megum ekki láta þau niðurrifsöfl sem sækja á okkar góða íslenska samfélag ná undirtökunum. Eftir þær hörmungar sem gengu yfir þjóðina á haustdögum 2008 skipta samvinna og stöðugleiki mestu skiptir á komandi árum. Framsóknarflokkurinn hefur ætíð staðið vörð um hornsteina samfélagsins, fjölskylduna, heimilin, atvinnuna, menntakerfið, heilbrigðiskerfið, lögregluna, Landhelgisgæsluna og dómstólana.

Virðulegi forseti. Sjá dagar koma. Það styttist í alþingiskosningar. Það er annar meiri hluti utan Alþingis en innan þess, mikil andstaða er við ríkisstjórnina meðal landsmanna. Margar ástæður liggja að baki en skemmst er að minnast almenns skeytingar- og kæruleysis gagnvart íslenskri lagasetningu og gildandi lögum. Réttarríkið sjálft er í raunverulegri hættu. Gefið er í skyn að lögreglan verji ekki þjóðþingið og sundrung hefur orðið milli þingmanna þegar kemur að þátttöku í óralöngum hefðum við þingsetningu.

Búið er að veikja svo innviði lögreglunnar síðustu fjögur ár að hún getur vart sinnt lögbundnu hlutverki sínu, þökk sé ríkisstjórninni. Við Íslendingar eigum gnótt tækifæra, við erum rík af náttúruauðlindum, við eigum legu landsins í breyttri heimsmynd og þrátt fyrir að náttúruöflin sjálf séu okkur stundum grimm færir náttúran okkur líka nýjan auð, nýjar náttúruauðlindir, hér nefni ég makrílinn og hugsanlega olíu.

Virðulegi forseti. Tungumálið sjálft og þjóðtrúin eru einnig sterkur hluti af íslenskri menningu og hornsteinn íslensks samfélags. Við verðum að standa vörð um það í kvikum heimi. Því er við hæfi að vísa á ný í ljóð Davíðs Stefánssonar, með leyfi forseta:

Í þúsund ár bjó þjóð við nyrstu voga.

Mót þrautum sínum gekk hún djörf og sterk,

í hennar kirkjum helgar stjörnur loga,

og hennar líf er eilíft kraftaverk.

Virðulegi forseti. Ég óska Íslendingum farsældar á komandi árum.