141. löggjafarþing — 2. fundur,  12. sept. 2012.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[22:08]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Kæra þjóð. Ég renndi yfir fjárlögin í dag og þó svo að þau séu ekki eins hræðileg fyrir innviði samfélagsins sem við byggjum saman og fyrri fjárlög þessarar ríkisstjórnar á eftirhrunstímum, þá sé ég ekki neitt til að tala um sem tryggir bætt kjör þeirra hópa sem sjaldan er um rætt nema á tyllidögum, sem svo sannarlega hafa þurft að bíða af sér storminn, oft við afar kröpp kjör.

Ég hitti nokkra úr þessum samfélagshópum fyrir utan þing við þingsetninguna í gær. Við í Hreyfingunni höfum það yfirleitt fyrir sið að fara út á meðal fólksins sem kemur þegar þing er sett til að heyra af hverju það drífur sig niður á Austurvöll við þetta tilefni. Flestir sem voru á Austurvelli í gær voru öryrkjar eða ellilífeyrisþegar. Þessir hópar eru yfirleitt alltaf hunsaðir: Hverju geta þeir svo sem hótað ef kjör þeirra eru skert? Að hætta að vera gömul, að hætta að vera veik? Þessir hópar voru fyrstir til að þurfa að þola skerðingar sem voru forleikurinn að Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þrönga stakki. Þessir hópar verða að fá kjör sín bætt. Ég skora á hæstv. ríkisstjórn að sýna að efniviður og grunnur hennar sé þeirra sem meina í sínu vinstra hjarta að þessir hópar megi ekki lengur verða út undan í samfélagi okkar. Horfumst í augu við það að það er viðvarandi fátækt á Íslandi sem er smánarblettur á samfélagi okkar. Gerum samkomulag um að gera allt sem við getum til að uppræta þessa smán.

Forseti. Það er margt sem þetta þing hefur gert vel og hefur ekki farið hátt enda ekki fréttnæmt ef fólk getur unnið vel saman sem kosið er til þess að gera einmitt það. Við höfum upprætt margar óþarfar hefðir. Leyndarhyggja er á undanhaldi, verið er að vinna að leiðum til að greiða leiðina á milli þings og þjóðar og vonandi tekst okkur að byggja hvata fyrir almenning til að fylgjast betur með og hafa bein áhrif á störf okkar. Það hefur vakið traust og jafnvel smáaðdáun að þingið samþykkti einróma að fela ríkisstjórninni það verkefni að smíða löggjöf sem lýtur að því að móta landinu sérstöðu er varðar upplýsinga-, tjáninga- og málfrelsi. Á komandi þingi verða lögð fram mörg frumvörp til laga sem eru samin með þetta að leiðarljósi frá ráðuneytunum sem var falið að smíða lögin byggð á ályktuninni. Ég hef fulla trú á að það séu ekki orðin tóm enda er verið að undirbúa og smíða lög í stýrihóp með fulltrúum úr öllum ráðuneytum sem tiltekin voru í þingsályktunartillögunni.

Forseti. Þingið hefur í auknum mæli tekið sér þau völd sem því ber sem löggjafarsamkundu, að smíða lög og fela framkvæmdarvaldinu verkefni sem eru stefnumótandi. Þannig virkar alvörulýðræði. Í Sviss er alvöruþrískipting valds, þar er þingið alvörulöggjafarsamkunda en ekki eins og víðast annars staðar tíðkast, þar á meðal hérlendis, stimpilstofa fyrir framkvæmdarvaldið. Ég vona að okkur takist að rjúfa vítahring gamalla hefða án þess þó að glata menningarlegum arfi okkar. Ég vona að það geti myndast sátt hér innan veggja og siðvæddari umræðuhefð verði ekki aðeins draumsýn.

Það er eitt sem mig langar til að minnast á í tengslum við umræðuhefðina hér inni á Alþingi. Verkefni okkar er að smíða lög sem eru ekki með holum í og fyrirbyggja að í þeim sé að finna grá svæði. Því er það til háborinnar skammar að við notum andsvör, sem eru glufa til misnotkunar í þingsköpum, á þann hátt sem við gerum. Við eigum að vera fyrirmynd og misnota ekki lög þó svo að það séu gallar í þeim.

Góðu landsmenn Núna er svokallað kosningaár. Þá verður mörgu fögru lofað og jafnvel verður það svo að ýmis kosningaloforð verða efnd. Þetta þing mun hafa tækifæri til að leggja grunn að því að endurheimta traust á þessari stofnun og vil ég leggja mitt af mörkum til að gera það að veruleika. Ég hef alltaf verið mjög veik fyrir nánast ómögulegum verkefnum og jafnvel sótt í slík verkefni. Ég hef nefnilega fulla trú á að okkur takist að reisa sanngjarnt samfélag byggt á nýjum grunni. Til þess þarf þing og þjóð að nýta þann efnivið sem við höfum til að byggja úr. Við höfum fengið góðan grunn út frá því ferli sem hefur nú þegar átt sér stað við undirbúning og afhendingu á nýrri stjórnarskrá. Ég vona að fólk átti sig á hve mikil forréttindi það eru að fá tækifæri á að taka þátt í þessu ferli hins þroskaða lýðræðissamfélags.

Það er nefnilega alls ekki sjálfgefið að fá slíkt tækifæri til að ræða um framtíðarskipan og efnivið samfélags síns. Þeir eru margir utan Íslands sem öfunda okkur fyrir að hafa skapað okkur þetta tækifæri. Það hefði ekki skapast ef krafan hefði ekki verið svo skýr fyrir síðustu kosningar um að við yrðum að huga að alvöruþrískiptingu valds, að tryggja alvöruupplýsingafrelsi, að tryggja að auðlindir þjóðar væru undir forsjá þjóðar, að kanna hvort tími væri kominn til aðskilnaðar ríkis og kirkju, fá betra kerfi til að kjósa eftir, beint lýðræði og betri leiðir til að tryggja aðhald og þátttöku almennings í samfélaginu. Lýðræði þýðir nefnilega að lýðurinn ræður. Það er ekki hægt ef fólk ræður aðeins á fjögurra ára fresti.

Það hefur skapast gjá á milli þings og þjóðar sem var svo æpandi með víggirðingunni fyrir utan þingið í gær. Byggjum brú yfir þessa gjá með því að treysta almenningi til að gefa okkur skýra leiðsögn um hvert skal halda með nýja stjórnarskrá.

Kæra þjóð. Ykkar er að færa okkur skýra leiðsögn með því að mæta á kjörstað þann 20. október og kjósa um tillögu um nýja stjórnarskrá. Okkur þingmönnum ber að hlíta vilja ykkar. Ég skora því á þing og þjóð að taka höndum saman til að tryggja að ferlið verði ferli sem við getum seinna litið á sem eitthvað sem við fyllumst stolti yfir að hafa fengið að taka þátt í. Við munum aldrei fá annað eins tækifæri. Nýtum það!