141. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[11:10]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Höskuldur Þórhallsson talar um mistök og að okkur hafi ekki tekist að fylgja eftir þeirri áætlun sem lögð var fram á árinu 2009 í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Sú áætlun var endurskoðuð fyrir síðustu fjárlög haustið eða sumarið 2011 þar sem ýmislegt hafði gerst á þessum þremur árum og hún var endurskoðuð með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þegar menn lögðust yfir málin, skoðuðu þróunina á Íslandi, hvað hefði gengið eftir og hvað ekki, skoðuðu efnahagsástand hjá þjóðunum í kringum okkur og veikingu þar, var ákveðið að fresta því að ná heildarjöfnuði um eitt ár.

Það er ekki hægt að horfa á það sem mistök heldur var þetta endurmat á áætlun sem var gerð þegar við horfðumst í augu við það að ríkissjóður gæti ekki borið sig og grípa þyrfti til harkalegra aðgerða til að snúa þeirri þróun við. Það var augljóst að endurmeta þyrfti þá áætlun. Það var gert og nú er því plani fylgt og öll merki sýna að allar líkur eru á því að sú áætlun standist.