141. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[11:13]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hrun bankakerfisins var okkur vissulega dýrt og þar er enn þá verið að hreinsa upp vandamál. Það gerðist við ríkisreikning 2011 þegar inn komu stórir póstar sem voru afleiðingar hrunsins eins og fall Sparisjóðsins í Keflavík. Þessar einskiptisaðgerðir allar saman höfðu áhrif á frumjöfnuðinn.

Þeir óvissuþættir sem tilgreindir eru varðandi þetta frumvarp og eru enn eftirhreytur hrunsins eru í fyrsta lagi Icesave-málið, sem við vitum ekki hvernig mun leggjast. Við vonum auðvitað að við berum engan skaða af því máli, en ómögulegt er að áætla það. Í öðru lagi er það veik staða Íbúðalánasjóðs. Komi það til að við þurfum að leggja inn á árinu 2012 fjármuni til að styrkja eigið fé Íbúðalánasjóðs mun það ekki hafa áhrif á frumjöfnuð, svo að það sé áréttað. Það mun ekki hafa áhrif á frumjöfnuð, ekki áhrif á efnahagsreikninginn sem slíkan, þannig að það stenst ekki að tiltaka það mál og segja það ógn við frumjöfnuð.