141. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[11:15]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsöguna um fjárlagafrumvarpið. Þetta er viðamikið starf og synd að ríkisstjórnin skuli sýna því svo litla virðingu að vera endalaust með það í einhverjum stólaleik á milli fólks í þingflokkunum. Það skiptir máli að fjármálaráðherra sé til staðar og hafi reynslu af þeim málaflokki sem um er fjallað.

Mig langar að beina tveimur spurningum til hæstv. fjármálaráðherra um frumvarpið því að ég finn ekki upplýsingar í því um það efni. Önnur snýr að umfjöllun í fjölmiðlum um niðurskurð til sérstaks saksóknara um 400–500 milljónir. Í fréttum var sagt að niðurskurðurinn byggði á grundvelli áætlunar frá sérstökum saksóknara um að málum yrði að miklu leyti lokið árið 2013. Þetta er tveggja eða þriggja ára gömul áætlun. Spurningin er: Er þetta rétt? Er þessi niðurskurður í samráði við sérstakan saksóknara og eru forsendurnar fyrir honum þær sömu og voru árið sem áætlanirnar voru gerðar? Hefur þetta verið gert fyrir fjárlög næsta árs í samráði við sérstakan saksóknara?

Hin spurningin snýr að vaxtakostnaði ríkissjóðs sem er nærri 90 milljarðar. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hefur því verið velt upp í ráðuneytinu af einhverri alvöru að endursemja um skuldir ríkissjóðs? Það er orðið augljóst núna eftir nærri fjögur ár að staða ríkissjóðs er ekki sjálfbær og skuldirnar fara hækkandi. Það er ekki hægt að ná skuldum ríkissjóðs niður nema með umtalsverðu tjóni á innviðum samfélagsins, svo sem niðurskurði í heilbrigðisþjónustu, sem er á mörkunum, menntamálum og samgöngumálum. Hefur það verið skoðað af alvöru í ráðuneytinu að fara aðrar leiðir í þessum málum en með endalausum skattahækkunum og niðurskurði?