141. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[11:17]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður spyr um greiðslu til sérstaks saksóknara. Nú er það svo að öllum tölum í fjárlagafrumvarpinu og öllum lyklum sem að því lúta var lokað í júní í sumar og farið eftir þeim áætlunum sem þá lágu fyrir. Varðandi endurmat á áætlununum þá veit ég ekki hvernig það stendur en sjálfsagt getur fagráðherrann svarað betur fyrir það.

Hvað það fé varðar sem rennur til sérstaks saksóknara, verður auðvitað farið eftir þeim áætlunum sem fyrir lágu í júní í sumar.

Hv. þingmaður segir að það þurfi að endursemja um skuldir ríkissjóðs vegna þess að skuldastaðan sé ekki sjálfbær. Það er rétt að skuldastaðan er okkur erfið og hún veikir okkur og við þurfum að vinna að því að leysa úr þeirri stöðu sem fyrst. Ég er þó ekki sammála hv. þingmanni um að hún sé ekki sjálfbær, að við getum ekki nýtt þann jákvæða heildarjöfnuð sem lítur út fyrir og spáð er og jafnframt sölu eigna til þess að greiða niður skuldir og lækka þennan stabba sem ég er sammála hv. þingmanni að þurfi að gera. Í fjármálaráðuneytinu er virk skuldastýring. Þar eru sérfræðingar sem sjá um þau mál og við höfum farið út á markað og fengið þar lán sem segir okkur að Ísland hefur aftur öðlast traust á lánsfjármörkuðum. Það skiptir miklu máli að vera ekki háð neyðarlánum eða lánum frá nágrannaþjóðum. En það eru ekki áætlanir um að taka allan skuldastaflann og endursemja um hann.