141. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[11:49]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Eins og aðrir fagna ég þessu nýja fyrirkomulagi á umræðu um fjárlagafrumvarpið. Það gerir okkur vonandi kleift að fara dýpra ofan í einstaka þætti.

Að undanförnu hefur ríkisstjórnin keppst við að lofa þetta fjárlagafrumvarp, sagt sjálf að það sé vel gert. Það skortir svolítið á að aðrir hrósi því. Það verður samt að viðurkenna að landinu hefur fleygt fram og það er jákvætt. Við erum á réttri leið. Ég er samt ekki sammála þeim orðum stjórnarliða að aðgerðir þeirra hafi þar átt stærstan hlut að máli.

Við búum við sjálfstæðan gjaldmiðil sem hefur reynst styrkur Íslands í kreppunni. Það dylst engum. Um leið hefur útflutningsgreinunum okkar vegnað afar vel. Það skiptir máli. Það skiptir máli að við höfum getað sótt um 24 milljarða í ríkissjóð út af makrílnum sem er afar jákvætt. Það skiptir líka máli að þeir ógnarvextir sem Icesave-samningarnir hefðu skellt á þjóðarbúið lentu ekki á okkur. Við sjáum það núna að það munar heldur betur um þá 24 milljarða sem ríkisstjórnin barðist fyrir í tvö ár að mundu lenda á íslensku þjóðinni en lenda ekki á okkur. Það skiptir máli.

Þegar við skoðum hvort árangur ríkisstjórnarinnar sé góður þá er sanngjarnt og eðlilegt að kíkja á þau markmið sem hún sjálf setti sér og ég ræddi örstutt við hæstv. fjármálaráðherra í andsvari við ræðu hennar. Ef við förum yfir markmiðin sem sett voru í skýrslu fjármálaráðherra um jöfnuð í ríkisbúskapnum fyrir árið 2009–2013 kemur í ljós að við erum í raun langt frá þeim markmiðum og metnaðurinn þótti ekki sérstaklega mikill þegar þau voru sett fram. Hagvöxturinn er á þessu ári um 2,5% en átti að vera um 4,5%. Hagvöxturinn hefur vissulega aukist en við þurfum að skoða af hverju það hefur verið vegna þess að þetta er ekki ríkisstjórn framkvæmdanna. Þetta er ríkisstjórn átaka, stórra orða og brostinna loforða.

Í stöðugleikasáttmálanum sem gerður var við aðila vinnumarkaðarins átti að fara af stað með ýmsar framkvæmdir sem því miður hafa ekki orðið að veruleika, aðallega vegna innbyrðis deilna í stjórnarliðinu. Í staðinn er hagvöxturinn knúinn áfram af einkaneyslu sem skýrist fyrst og fremst af því að fólk hefur fengið heimild frá ríkisstjórninni til að taka út séreignarsparnaðinn sinn, séreignarsparnað sem var varinn fyrir innheimtustofnunum bankanna. Það var með öðrum orðum ekki hægt að sækja í þá sjóði en ríkisstjórnin gerði það kleift þannig að fólk sá sér þann einan kost vænstan að taka út sparnaðinn sinn og greiða niður skuldir. Þetta mun skapa vandamál í framtíðinni, svo mikið er víst.

Fregnir úr Seðlabankanum, um að nú sé fólk farið að reiða sig á ógnarháan yfirdrátt, gera það að verkum að við þurfum heldur betur að staldra við og spyrja okkur hvert við stefnum í þessu samfélagi. Í stefnuræðu sinni sagði hæstv. forsætisráðherra að skuldir heimilanna væru tilkomnar fyrir hrun. En ekki hvað? En ekki hvað, virðulegi forseti? Að sjálfsögðu eru skuldir heimilanna tilkomnar á árunum fyrir hrun. Þær eru hluti af vandanum og hafa allan tímann verið hluti af vandanum. Ég vona svo sannarlega að þessi orð hæstv. forsætisráðherra séu ekki til marks um að ríkisstjórnin ætli enn á ný að horfa fram hjá þessum vanda.

Það má líka benda á að hæstv. forsætisráðherra sat í ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks, sem fáir vilja kannast við að hafa setið í, og ber heitið gleymda ríkisstjórnin, en sú ríkisstjórn jók útgjöld ríkisins um 20% fyrir árið 2008 þegar fyrir lá að íslenskur ríkissjóður ætti í verulegum vandræðum. Við framsóknarmenn settum okkur upp á móti þeim hugmyndum. Það var vissulega erfitt en það var ábyrgt og við höfðum frá þeim tíma verið ábyrg í málflutningi okkar þegar kemur að ríkissjóði.

Nú segir hæstv. fjármálaráðherra í frumvarpi til fjárlaga að þáttaskil séu í þróun ríkisfjármála á Íslandi um þessar mundir. Hann segir, með leyfi forseta:

„Allar horfur eru á að jákvæður frumjöfnuður náist í ríkisrekstrinum á yfirstandandi fjárlagaári í fyrsta skipti frá hruni íslenska bankakerfisins haustið 2008.“

Þetta eru stór orð, sérstaklega í ljósi þess að fyrrverandi hæstv. fjármálaráðherra og formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hefur ítrekað komið í þennan ræðustól og fullyrt að frumjöfnuðinum hafi verið náð. Hann gerði það ekki bara í fyrra, hann gerði það árið áður. En það var undarlegt í ljósi þess að bæði við í Framsóknarflokknum og félagar okkar í Sjálfstæðisflokknum og Hreyfingunni bentu á að þetta gæti ekki staðist, það væru liðir inni í þessu sem mundu skekkja þessa útkomu. Staða ríkissjóðs væri í raun mun verri en fyrrverandi fjármálaráðherra gæfi í skyn.

Nú vitum við að staðan er líka verri fyrir komandi ár en gefið er í skyn í þessu fjárlagafrumvarpi. Við vitum að það þarf að styrkja eiginfjárþörf Íbúðalánasjóðs. CAD-hlutfallið er um 2% en þarf lögum samkvæmt að vera um 5%. Hér erum við að tala um einhverja 12 milljarða og þá er allur annar vandi óræddur. Ég hef ekki miklar áhyggjur af Icesave, svo að ég segi það fyrir mína parta, en að sjálfsögðu er rétt að taka mið af því og búast við hinu versta. En það er óræð tala á meðan menn geta fljótlega áttað sig á hver stærðin verður varðandi Íbúðalánasjóð.

Ég tek undir orð hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar þegar hann segir: Það gengur ekki eina ferðina enn að við sjáum þess stað í ríkisreikningi að verið sé að setja þessar tölur inn. Það er erfitt fyrir okkur sem hér stöndum að vera endalaust að tala um tölur sem eru tvö ár aftur í tímann. Við getum skoðað stöðuna fyrir árið 2010. Þar var staðan um 25 milljörðum verri en ríkisstjórnin sagði að hún mundi vera, 25 milljörðum. Gert var ráð fyrir að hún yrði um 99 milljarðar en það endaði í 123 milljörðum. Á árinu 2011, þegar ríkisstjórnin sagði að hún hefði náð glæsilegum árangri, átti hallinn að vera um 37 milljarðar á meðan heildarhallinn var 89 milljarðar, 42 milljörðum verri en ríkisstjórnin sagði.

Talað er um einskiptisaðgerðir en á ekki að taka tillit til þeirra aðgerða? Það þarf að borga þær eins og annað. Hvaða heimili getur leyft sér að taka það ekki með í reikninginn þó að það kaupi sér einhvern einn hlut í hvert skipti? Að sjálfsögðu þarf að gera ráð fyrir því þegar áætlun næsta árs verður gerð.

Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um hækkanir ríkisstjórnarinnar á ferðaþjónustu. Ég tel þær vera vanhugsaðar og ég er ekki sannfærður um að þær munu skila auknum tekjum. Ég held að þær muni hafa þau áhrif, eins og fjölmargir aðilar bæði innlendir og erlendir hafa bent á, að ferðamannastraumur til Íslands muni minnka. Það eru slæmar fréttir. Við erum að tala um atvinnugrein sem er í örum vexti. Tækifærin eru gríðarleg, uppbyggingin á sér stað núna. Það er búið að plana fram í tímann eins og þarf í öðrum starfsgreinum en engu að síður á að ráðast þar inn.

Það er eitt sem ég er þó ánægður með, það er að loksins er tekið mark á tillögum okkar framsóknarmanna um að bæta hag barnafólks, ekki bara með hækkun barnabóta heldur líka með styrkingu Fæðingarorlofssjóðs sem við börðumst fyrir að yrði settur á laggirnar á sínum tíma. Allt þetta kjörtímabil höfum við lagt til að barnabætur yrðu hækkaðar í fjárlögum. Ríkisstjórnin hefur alltaf sagt nei við því að barnabætur yrðu hækkaðar og sagt nei við því að Fæðingarorlofssjóður yrði styrktur. En ekki núna og það er jákvætt. En hæstv. fjármálaráðherra verður að svara þeirri spurningu: Af hverju núna en ekki þá? Í mínum huga var þetta algert forgangsatriði, sérstaklega þegar lá fyrir að hækkun á skuldum heimilanna mundi fyrst og fremst bitna á þessum hópi.

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson fór aðeins yfir vaxtagjöldin og hvað það muni þýða fyrir ríkissjóð á næsta ári. Ég ætla ekki að fara yfir það en mig langar að lokum til að minnast á óleystan vanda innan heilbrigðiskerfisins. Það á ekki að skera niður en í mínum huga þarf að laga þann vanda sem ýmsar heilbrigðisstofnanir og Landspítalinn glíma við. Það verður að rétta af þau mistök sem þessi ríkisstjórn gerði á síðustu árum.

Að Landspítalinn sé með þriggja milljarða yfirdrátt hjá ríkissjóði er galið, virðulegi forseti. Að einstakar heilbrigðisstofnanir hafi þurft að leita til bankastofnana með yfirdráttarlánum gengur einfaldlega ekki, virðulegi forseti. Þegar Framsóknarflokkurinn skilaði af sér heilbrigðiskerfinu árið 2007 kom út skýrsla hjá OECD þar sem sagði að heilbrigðiskerfi landsmanna væri lofsvert, að aðrar þjóðir ættu að taka sér það til fyrirmyndar. Þessi ríkisstjórn ákvað að gerbreyta því kerfi sem aðrar þjóðir áttu að taka sér til fyrirmyndar í gegnum fjárlögin.

Ég er búinn með tímann. En ég vil samt segja að það verður verkefni Framsóknarflokksins á næstu árum — vonandi hið fyrsta — að snúa við þeirri þróun og laga það sem aflaga hefur farið sérstaklega í velferðarmálum.