141. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[12:22]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson spyr hvort ég sé sammála því að hér eigi að setja upp einhvers konar fjármálaráð eða eitthvert slíkt apparat sem passar upp á að við þingmenn gerum ekkert af okkur og setur okkur ramma. Ég er sammála því að við eigum að skerpa miklu betur á bæði eftirfylgni fjárlaga og fjárlagagerðinni. Við höfum báðir fengið ágæta kynningu á því hvernig þetta er gert í öðrum löndum, ekki alls staðar reyndar en víðast hvar. Af þeirri ástæðu, eins og í Svíþjóð þar sem við fengum ágæta kynningu á slíku máli, var þjóðin sem slík, ekki bara þingið heldur þjóðin sammála því að láta það aldrei endurtaka sig sem þar gerðist í upphafi tíunda áratugar — láta það aldrei gerast aftur sem þá gerðist. Um það eigum við auðvitað að vera sammála, að láta það aldrei endurtaka sig sem hér gerðist 2008, og við eigum að finna leiðir til þess.

Við fengum fjölmargar ágætar ábendingar um hvernig mætti gera það og hvernig fyrirkomulag mætti vera á því, m.a. með einhvers konar fjármálaráði þannig að fleiri stofnanir fylgdust með því sem væri verið að gera í fjármálum ríkisins en bara Ríkisendurskoðun o.s.frv. Ég er sammála því en valdið verður alltaf hér, ákvörðunarvaldið. Við megum aldrei framselja það frá okkur.

Það yrði hins vegar mjög erfitt fyrir okkur að ganga gegn því sem okkur væri ráðlagt, samanber það sem okkur var sagt í ágætri ferð okkar til Svíþjóðar, m.a. til fjármálaráðuneytisins þar. Þeir sögðu einfaldlega að ef einhver vogaði sér að ganga gegn slíkum ráðleggingum (Forseti hringir.) ætti viðkomandi sér varla lengra pólitískt líf.