141. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[12:44]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég get tekið undir margt sem kom fram í máli hv. þingmanns en að sjálfsögðu ekki allt.

Hv. þingmaður kom inn á þann niðurskurð og þær aðstæður sem hafa verið á Landspítalanum. Ég get tekið undir gagnrýnina og við höfum séð í fréttum á undanförnum dögum ástandið þar á tækjum og búnaði. Það snýst líka um það vald sem þingið er að framselja til framkvæmdarvaldsins. Í svokallaðri 6. gr. heimild eru margir liðir en á bak við hana standa 320 milljónir, þ.e. heildarkostnaðurinn sem gert er ráð fyrir í fjárlögunum að eigi að nota þar. Þar í eru til að mynda kaup á sendiherrabústað, sumarbústað og jörðum í þjóðgarði á Þingvöllum. Síðan kemur grein 7.6 um að veita Nýjum Landspítala ohf. skammtímalán vegna undirbúnings hönnunar nýs Landspítala við Hringbraut. Ég verð að viðurkenna að ég hræðist það dálítið hvað felst í þessu og þeirri ákvarðanatöku sem þingið þarf að fara yfir. Það vantar málefnalega umræðu um kosti og galla þess að byggja nýjan Landspítala, það liggur ekki fyrir við afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins núna en er stefnt að því að það verði við 2. umr. eða að minnsta kosti við lok umræðu um frumvarpið.

Ég spyr: Getur hv. þingmaður tekið undir áhyggjur mínar? Við þekkjum reynsluna af 6. gr. heimild til framkvæmdarvaldsins og er kannski þarft að minna á að svona kom Harpa inn á sínum tíma. Svo er í raun og veru engin efnisleg umræða eða ekki nægileg í þinginu heldur er framkvæmdarvaldinu, þá hæstv. fjármálaráðherra, gefin heimild til að hefja undirbúning að nýrri byggingu Landspítalans. Teldi hv. þingmaður ekki (Forseti hringir.) eðlilegra að þetta væri með öðrum hætti en í 6. gr.?