141. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[12:46]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Þegar verið var að fjalla um þessi mál varðandi Landspítalann í fyrsta skipti í fjárlaganefnd lauk nefndin málinu með þeim hætti að ekki yrði áframhald á því verkefni hvað varðar útgjöld fyrir ríkissjóð nema fjárlaganefnd samþykkti það aftur, þ.e. málið var sett í þannig farveg að fjárlaganefnd átti að geta haft eftirlit með öllum stigum þess fram að framkvæmdastiginu. Það var vel.

Hér er verið að opna á risavaxna heimild um spítala og byggingu sem er mjög umdeild. Ég fylgdist mjög vel með umræðunni á sínum tíma hérna í Reykjavík þegar verið var að ákveða staðsetningu spítalans. Ég verð að viðurkenna að ég keypti þau rök sem voru færð fram fyrir staðsetningunni og þá var þegar orðið ómögulegt að stækka við Borgarspítalann vegna annarra bygginga sem voru komnar þar. Að því leytinu til held ég og miðað við það sem ég hef aflað mér upplýsinga um, m.a. í fjárlaganefnd, er þetta framkvæmd sem mun leiða til mjög mikillar hagræðingar í heilbrigðiskerfinu og á Landspítalanum. Ég vona að sú hagræðing nægi til að borga bygginguna að fullu þegar upp verður staðið en ég get ekki haft annað en efasemdir um það miðað við kostnað við aðrar opinberar framkvæmdir á landinu hingað til.

Ég reikna einfaldlega með og vona svo sannarlega að fjárlaganefnd muni setjast vandlega yfir málið og óska eftir einhvers konar betri áætlunum um framkvæmdatíma og kostnað við framkvæmdirnar. Það skýtur svo skökku við að vera að fara út í nærri 100 milljarða kr. framkvæmd hérna hinum megin við holtið á sama tíma og varla eru til, eins og ég sagði í gær, peningar fyrir límbandi til að líma saman lækningatækin á spítalanum.

Það er eitthvað bogið við þá forgangsröðun og það er mjög erfitt að réttlæta hana og við verðum að skoða þetta mál mjög vel.