141. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[12:50]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi nýja Landspítalann segir í grein 7.6 á bls. 11, með leyfi forseta, „að veita Nýjum Landspítala ohf. skammtímalán vegna undirbúnings hönnunar nýs Landspítala við Hringbraut“. Þetta er að sjálfsögðu allt of opið orðalag. Þetta er gríðarlega stór og flókin framkvæmd og áður en farið er af stað með hvert og eitt stig hennar verður að liggja fyrir fyrir fram hver kostnaðaráætlunin er. Annað er óábyrgt og ég hvet hæstv. fjármálaráðherra og aðra sem hafa lagt hönd á plóg við þetta frumvarp að sjá til þess að málið verði skoðað rækilegar en kemur fram hér.

Hvað varðar aðrar skuldbindingar utan efnahags er það alveg rétt, hvað sem mönnum finnst um framkvæmdirnar sjálfar, sumir eru sammála þeim og aðrir ósammála, hv. þingmaður nefndi Vaðlaheiðargöng, að þær hefðu átt sér stað utan efnahags, sumar hverjar, Harpa og fleiri, og þetta er gríska leiðin. Það er bara þannig. Ekki er hægt að horfa fram hjá því. Það mun leiða til ófarnaðar eða enn meiri ófarnaðar þegar upp verður staðið ef menn halda því áfram. Þetta er orðið — blekkingaleikur er kannski of djúpt í árinni tekið, en það er ekki góður bragur á þessu vegna þess að þær tölur koma ekki fram sem skuldir ríkissjóðs. Hið sama á við um þá aðferð sem við notum fremur mörgum öðrum þjóðum, þ.e. varðandi ríkisábyrgðir til stofnana og fyrirtækja ríkisins. Í stað þess að ríkið taki lán og endurláni þeim eru þær með sjálfstæðan lántökurétt og þar af leiðandi koma þær skuldir ekki fram sem skuldir ríkissjóðs. Þetta er almennt talið líka svokallað grískt vandamál því að þetta er leið til þess að fela skuldir ríkissjóða. Og hún er ekki góð.