141. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[13:32]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Við fylgjum hér úr hlaði frumvarpi til fjárlaga, því fjórða sem lagt er fram af hálfu ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og því síðasta á yfirstandandi kjörtímabili. Þetta er mikið plagg og að mörgu leyti gott og felur í sér góða og heilbrigða pólitík. Við höfum farið í gegnum erfið ár og höfum þurft að taka erfiðar ákvarðanir. Það var gert, það var sársaukafullt, en árangurinn er að skila sér.

Frú forseti. Áður en lengra er haldið langar mig að þakka fyrir þá málefnalegu umræðu sem fram hefur farið hér í morgun um fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2013. Umræðan hefur að mörgu leyti verið uppbyggileg, góður bragur á henni. Við eigum eftir að fjalla rækilega um frumvarpið á næstu vikum. Ég ber þá von í brjósti að stjórn og stjórnarandstaða geti lagt á ráðin, vegið og metið hvað beri að endurbæta og hvar megi gera gott betra. Öll svona plögg eru vitaskuld ekki gallalaus og með því að rýna í frumvarp til fjárlaga, rýna í það til gagns, getum við bætt það. Það er verkefni okkar þingmanna að bæta samfélagið, bæta lög og þar á meðal fjárlög.

Ég vil líka nota tækifærið, frú forseti, til að þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir það mikla verk sem er að baki frumvarpi til fjárlaga og ég vil þakka starfsfólki hennar í fjármálaráðuneytinu. Sá sem hér stendur veit, eftir að hafa setið í fjárlaganefnd til þriggja eða fjögurra ára, að þar er gjarnan lögð nótt við dag til að koma þessu verki í prentun. Við megum ekki gleyma því fólki sem þar leggur hönd á árar.

Hvaða leið valdi þessi ríkisstjórn jöfnuðar og félagshyggju út úr kreppunni? Hægt var að fara nokkrar leiðir. Í því tökumst við á um pólitískar leiðir. Að mínu viti fórum við leið jöfnuðar og það var farsæl leið. Við bættum samfélagið, jukum á samfélagsgildin. Við fórum ekki leið sundrungar og aukins ójöfnuður heldur lögðum við okkur beinlínis í framkróka við að tryggja að þeir sem hefðu það fjárhagslega verst kæmu betur út úr kreppunni en hinir sem ef til vill voru aflögufærir. Við völdum blandaða leið, jukum tekjur svo að tugum milljarða skipti en hagræddum auk þess sem tugum milljarða skipti til viðbótar við tekjuöflunina.

Það var ekki um aðra leið að ræða. Menn hafa nefnt að hægt hefði verið að gefa í í atvinnulífinu. En eins og menn þekkja, og þar á meðal sérfræðingar heima og erlendis, voru langflest fyrirtæki það löskuð eftir efnahagshrunið að undir öllum kringumstæðum hefði verið erfitt að koma þeim í gang og koma þeim til aukins vaxtar nema eftir skuldaaðlögun eftir ákveðinn tíma. Þess vegna var ekki um annað að ræða en fara þá blönduðu leið tekjuöflunar og hagræðingar sem farin var. Leiðin var til jöfnuðar og það er vel.

Það er eftirtektarvert, frú forseti, að skoða þær leiðir sem nágrannaþjóðir okkar hafa farið út úr kreppunni — sumar hverjar eru reyndar enn í kreppu — og bera það saman við jafnaðarleiðina sem farin var á Íslandi. Við getum til dæmis horft til frænda okkar Íra sem fóru ekki sömu leið og íslensk stjórnvöld. Kjaraskerðing til þeirra lægst launuðu eftir kreppuna á Írlandi nam 26%, meðaltekjuhópsins um 11% og hátekjuhópanna um 8%. Á Írlandi völdu menn þá leið að hlífa þeim sem hafa hæstu tekjurnar. Á Íslandi var þessu einfaldlega öfugt farið og leið jöfnuðar valin. Meðaltekjuhóparnir urðu fyrir 20% kjaraskerðingu, millitekjuhóparnir um 14%, lágtekjuhóparnir um 9% en hátekjuhóparnir, um 10% samfélagsins, vinnuaflsins, urðu fyrir 38% tekjuskerðingu af völdum hinna efnahagslegu ófara og þeirra aðgerða sem gripið var til í gegnum skattkerfið, í gegnum fjárlög og önnur þau tæki, þar á meðal bótakerfið, sem handbær eru.

Að mínu viti er árangurinn að skila sér í betra samfélagi, sáttara samfélagi. Sá sem hér stendur trúir ekki á samfélag ójöfnuðar. Samfélag gerir ráð fyrir heilbrigðum jöfnuði. Samfélag sem gerir ráð fyrir ójöfnuði og reynir að auka hann er ekki félag með forskeytinu sam-. Það er lélegt samfélag. Við sjáum greinargóðar úttektir á þeim samfélögum sem hvað lengst hafa farið í ójöfnuði. Þar eru veikindi mest, glæpir mestir, andleg vanlíðan mest, þunganir ungra kvenna algengastar, fangelsi yfirfyllri en annars staðar þekkist o.s.frv. Samfélag ójöfnuðar er langtum óheilbrigðara í alla staði en samfélag sem leitast við að fólk snúi bökum saman og búi við svipuð kjör — helst góð kjör. Það á að vera verkefni okkar stjórnmálamanna að reyna að bæta kjör allra.

Við erum að ná árangri, það bera tölur með sér. Atvinnuleysistölur eru að fara niður í prósentutölur sem reyndar eru enn of háar en eru þó vel innan við helftin af því sem var þegar mest gekk á. En ef við horfum í kringum okkur sjáum við að á Spáni fór atvinnuleysið úr 17% upp í 22% eftir kreppu, í Grikklandi úr 8% í 22% og í Portúgal úr 8% í 12%. Ég nefndi Írland áðan, þar fór það úr 13% í 15%. Þar hefur atvinnuleysi verið að aukast með auknum ójöfnuði en hér með auknum jöfnuði hefur atvinnuleysi verið að minnka.

Við höfum þurft að fara leið hagræðingar og aukinnar tekjuöflunar. Eitt það ánægjulegasta sem lesa má úr nýju fjárlagafrumvarpi hæstv. fjármálaráðherra er að nú höfum við borð fyrir báru — nú er árangurinn að skila sér — í því að hlífa barnafólki og gott betur. Við erum að auka þjónustu við barnafjölskyldur, þar á meðal í gegnum barnabótakerfið og styrkingu Fæðingarorlofssjóðs. Þá leið eigum við að fara. Það er mjög mikilvægt fyrir stjórn jöfnuðar og félagshyggju að koma til móts við þann breiða hóp í samfélaginu sem er að koma sér þaki yfir höfuðið og er að stuðla að því að við verðum áfram tiltölulega ung þjóð. Það getum við gert með því að koma til móts við þann hóp sem er að eignast börn, komast til mennta, og er að reyna að koma sér þaki yfir höfuðið. Það er gert með þessu fjárlagafrumvarpi en það gátum við hins vegar ekki gert fyrr en við vorum búin að ná aga í ríkisfjármálum. Það hefði verið óábyrgt að gera það án innstæðu. Nú höfum við innstæðu.

Frú forseti. Við erum enn að afla tekna og tekjurnar hafa verið að aukast. Það er vel og þær hafa verið að skila sér betur en sumir þorðu að vona þrátt fyrir auknar álögur. Enn þarf að afla eðlilegra tekna og leita nýrra pósta til að hlífa velferðarkerfinu, til að hlífa heilbrigðiskerfinu, til að hlífa menntakerfinu eins og gert er í þessu fjárlagafrumvarpi og ber að hrósa. Við erum að leggja auknar álögur á þá sem reykja, taka í nefið, borða sykur, og reyndar líka á suma pósta atvinnulífsins sem notið hafa sérmeðferðar í skattkerfinu. Það finnst mér að mörgu leyti eðlilegt vegna þess að skattkerfið á að vera tiltölulega einfalt og gagnsætt þegar kemur að atvinnulífinu og einstaklingum. Það á að gæta jafnræðis.

Það er umhugsunarvert að ein grein atvinnulífs sé í þeim flokki virðisaukans sem tekin er pólitísk ákvörðun um að hlífa á meðan aðrar greinar þurfa að búa við almenna skattþrepið. Það er ánægjulegt að sjá að hæstv. fjármálaráðherra hefur átt gott samtal við greinina sem hér um ræðir, ferðaþjónustuna, og þessi breyting verður gerð í samráði og ég áskil mér rétt til að fylgjast með því samráði. Vonandi fer svo að auknar álögur verði í þrepum og þannig verði sérstöðu greinarinnar mætt. Ferðaþjónustan þarf að horfa á rekstur sinn vel fram í tímann, gerir stundum tekjuáætlanir tvö og jafnvel fjögur ár fram í tímann. Komið hefur verið til móts við þessa gagnrýni greinarinnar og það er vel. Við eigum að hlusta á fólkið í landinu, við eigum að hlusta á fjölskyldurnar, við eigum að hlusta á fyrirtækin.

Frú forseti. Gætt hefur nokkurrar óþreyju í samfélaginu, t.d. af hálfu stjórnarandstöðunnar, sem hefur haldið því fram að okkur í stjórnarliðinu hafi gengið illa að koma gangverki atvinnulífsins af stað. Ég tel að okkur hafi tekist það með ágætum á þeim tíma sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur verið við völd. Ekki var hægt að ætlast til þess að gangverk atvinnulífsins færi á yfirsnúning strax eftir hrun vegna bagalegrar skuldastöðu en fyrirtækin eru jafnt og þétt að jafna sig. Sumir hafa nefnt hagvaxtartölur eins og 5–7%, að þær væru eðlilegar svo að segja korteri eftir hrun. Það er vitaskuld fáránleg óskhyggja og hefði á engan hátt verið mögulegt. Við horfum hins vegar á hagvaxtartölur upp undir 3% og ef til vill berast jákvæðari tíðindi í nóvember þegar Hagstofan gefur út nýjar hagtölur, sem eru vel yfir því sem viðmiðunarlönd okkar geta státað af. En ekki verður boðið upp á sömu veisluna á ný. Ekki verður boðið upp á sömu ofþensluna á ný. Ekki verður boðið upp á sama bruðlið á ný. Við verðum að eiga fyrir útgjöldum. Að mati þess sem hér stendur er þetta frumvarp ábyrgt, það er innstæða fyrir því og þannig eigum við að reka samfélag okkar.

Danir eru með 2% aðhaldskröfu á hverju einasta ári í fjárlagagerð sinni. Hér gerum við ekki ráð fyrir neinni hagræðingu í heilbrigðiskerfinu, heilsugæslunni, öldrunarþjónustunni, hálfu prósenti í löggæslunni. Við erum að verja velferðina eins og við frekast getum miðað við kjör. Það er eðlilegt á hverjum tíma að fara með gát þegar fjármunir ríkisins eru í húfi og það eigum við að gera. (Forseti hringir.) Við eigum ekki að bjóða til annarrar veislu. Við eigum að sýna aðhald og sparnað í ríkisfjármálum. (Forseti hringir.) Þannig tökum við á vöxtunum og það er verkefni næstu ára.