141. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[13:52]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin og heyri að við erum nokkuð sammála um að það hefði verið æskilegra að fara fram með hækkunina á skattinum á ferðaþjónustuna á annan hátt og hafa ekki samráðið eftir á.

Hv. þingmaður kom töluvert inn á það í ræðu sinni hversu mikill árangur hefði náðst og þetta hefði gengið allt ljómandi vel, og endaði síðan á að segja í lokin að það stæði svo sem ekki til að bjóða til áframhaldandi veislu. Mig langar aðeins að rifja það upp í þessari umræðu og ég held að það sé hollt fyrir okkur öll, að á síðasta ári jukust skuldir ríkissjóðs um 200 milljarða. En svo öllu sé til haga haldið aukast líka eignir ríkissjóðs á móti, þ.e. efnislegar eignir þannig að nettóstaðan er í kringum 100 milljarðar. Það blasir auðvitað við öllum að við erum að greiða núna á næstu fjórum árum 370 milljarða í vexti og nú er þetta næststærsti útgjaldaliðurinn á eftir velferðarmálunum, þ.e. vaxtakostnaður ríkisins sem er um 15% á fjárlögum næsta árs. Ég vil því brýna fyrir fólki og hv. þingmönnum að vera meðvitaðir um hver staðan er í raun og veru því það er auðvitað freistandi að auka í. Það er mikilvægt að fólk geri sér nákvæmlega grein fyrir stöðunni eins og hún er. Hv. þingmaður situr í fjárlaganefnd og gerir sér eflaust grein fyrir því hvernig staðan er, ég þykist vita að hann geri það. En við getum ekki komist upp með það að setja alltaf byrðarnar yfir á næstu kynslóðir. Það er mjög mikilvægt að við tökum á skuldavanda ríkissjóðs og náum að fara að greiða niður skuldir til að geta notað peningana í annað en vaxtakostnað. En þetta er þessi glæsilegi árangur sem hv. þingmaður talar um, skuldirnar jukust um 200 milljarða á síðasta ári, nettó um 100 milljarða, og vaxtagjöldin næstu fjögur árin ef allt gengur eftir er í kringum 370 milljarðar.